Jafn fáránlegt og að rétta typpi af með spelkum

Skýringarmynd sem Anna birti á Facebook síðu sinni.
Skýringarmynd sem Anna birti á Facebook síðu sinni. Ljósmynd/Anna Lotta

Anna Lotta Michaelsdóttir er 22 ára sálfræðinemi í Hollandi. Um daginn fór hún í þriggja vikna kynningaráfanga um kynlíf þar sem hún segist hafa lært meira um sjálfa sig en samanlagt í grunn- og menntaskóla. Þetta kom henni mikið á óvart og hún deildi því sem hún lærði með Facebook vinum sínum.

Kom gríðarlega á óvart

„Ég var í mjög stuttum valáfanga úti, kynningaráfanga um kynlíf. Mér blöskraði að ég, 22 ára gömul, hafi þurft að fara í örstutt valfag í háskólanáminu mínu sem tengist því varla beint til þess að fá einhverjar grunnupplýsingar um sjálfa mig og hvernig líkaminn minn virkar,“ segir Anna Lotta í samtali við mbl.is.

„Það var ótrúlega leiðinleg upplifun. En á sama tíma vakti þetta rosalega mikinn áhuga hjá mér, ég fann fyrir gríðarlegum áhuga. Áfall er fullsterkt orð en þetta kom mér gríðarlega á óvart á neikvæðan hátt.“

Kynfræðsla verður að batna

Anna segir að kynfræðsla hér heima verði að batna. Einnig verði hún að vera meira en að sýna hvað gerist þegar túrtappi er settur í vatn, eða að setja smokk á banana. Það er bráðnauðsynlegt að við að kenna börnum og unglingnum, og læra sjálf, á líkamana okkar. „Maður getur ekki kallað fræðsluna hérna heima áfanga. Ég man eftir þremur tímum yfir fjórtán ára skólagöngu, grunn- og menntaskóla. Ég myndi ekki tala um neinn áfanga í kynfræði, þetta var bara bundið inn í líffræði og lífsleikni.“ 

„Þykir eðlilegt að henda stelpum á pilluna“

Anna fjallar til að mynda um að litlar upplýsingar séu gefnar um áhrif getnaðarvarnarpillunnar en samt séu margar stelpur settar á pilluna, það sé svo þægilegt. „Þetta kom mér mikið á óvart. Það var aðallega af því að ég byrjaði á pillunni þegar ég var 15 ára og það var talað um þetta eins og það væri ekkert mál. Ég hef heyrt sömu sögu frá fullt af fólki sem ég þekki. Þetta er þá auðveld leið til að losna við túrverki, mér virðist eins og það sé litið á þetta sem alhliða lausn á öllu og ekkert talað um hvaða áhrif þetta getur haft eða hvað það þýðir.“

Stelpur viti lítið hvað þær eru að taka inn og það er látið eins og ekkert sé eðlilegra. „Þetta er augljóslega ekki eðlilegt. Nýjustu rannsóknir, frá 2014, sýna að pillan minnkar náttúrulega framleiðslu testósteróns að meðaltali um 61%. Það þykir eðlilegt að henda stelpum á pilluna þegar þær eru rétt skriðnar yfir kynþroskaaldurinn, mér þykir það stórfurðulegt.“

Fjallað var um „karlapilluna“ á námskeiðinu í Hollandi en hún virkar jafn vel og kvenpillan. Fyrirlesarinn velti fyrir sér hvort ástæðan fyrir því að notkun hennar væri lítil sem engin væri því karlar myndu ekki láta sér detta í hug að taka inn pillu sem minnkar kynlífslöngun þeirra. Eða hvort konur myndu yfir höfuð treysta körlum til að taka pilluna samviskusamlega.

„Alltaf miðað við líkama stráksins“

Anna talar einnig um notkun sleipiefnis hjá konum sem virðist vera talin hinn eðlilegasti hlutur. Hún líkir því við að ef sleipiefni sé notað því stelpan „er ekki nógu blaut“ sé því í raun jafn fáránlegt og að ætla að rétta typpi með spelkum áður en samfarir hefjist. „Ég valdi viljandi harkalegt orðalag til að vekja athygli. Núna tala ég bara út frá mínum reynsluheimi og vinkvenna minna. En það hafði ekki hvarflað að manni að þetta væri eitthvað sem maður þyrfti að pæla í, hvort minn eigin líkami væri tilbúinn. Það er alltaf miðað við líkama stráksins og hvenær hann er tilbúinn. Ég vildi tala um þetta til að sjokkera.

Anna tekur fram að nokkrar konur hafi haft samband við hana til að láta óánægju sína með þessa líkingu í ljós. „Þær hafa talað um að þetta sé særandi orðalag. Ég skil það fullkomnlega en á sama tíma er kannski einmitt leiðin til að taka þá skömm í burtu að opna umræðuna. Vita þá hvað er eðlilegt og hvað ekki og hverjar eru bestu leiðirnar og taka þannig skömmina í burtu, til að fólk sem sé örlítið frá norminu þurfi ekki að skammast sín.“

Anna fjallar einnig um g-blettinn, fullnægingu og snípinn á facebook síðu sinni. Hún segist vonast til þess að fólk læri ekkert nýtt á þessum skrifum hennar, því þetta sé eitthvað sem allir eigi að kannast við.

Hér er hægt að lesa grein um kosti þess að byrja kynfræðslu snemma.

Hvers vegna fékk ég enga kynfræðslu? / Nokkrir hlutir sem ég vissi ekki um líkamann minnHæ.Ég er 22 ára og að læra sá...

Posted by Anna Lotta on Thursday, July 30, 2015
Anna vill að kynfræðslan hér á landi batni.
Anna vill að kynfræðslan hér á landi batni. Ljósmynd/Anna Lotta
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert