Löggjafinn heldur ekki í við tæknina

Það auðveldar læknum starfið að geta vísað fólki sem þráir …
Það auðveldar læknum starfið að geta vísað fólki sem þráir að eignast barn erlendis þegar öll ráð hafa verið reynd heima fyrir. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/RAX

Það felast margar áskoranir, en einnig möguleikar, í því að geta sótt læknisþjónustu þvert á landamæri. Læknar sem aðstoða einstaklinga við að eignast börn segja sérstaklega erfitt að geta ekki nálgast ítarlegar upplýsingar um viðskiptavini erlendis frá, en það sé jafnframt kostur að geta vísað fólki út þegar úrræði heima fyrir hafa verið reynd til þrautar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Helgu Sólar Ólafsdóttur félagsráðgjafa, sem ræddi við níu lækna á frjósemismeðferðarstöðvum á Íslandi og í Danmörku. Hún kynnti niðurstöðurnar í erindi á ráðstefnu Nordic Fertility Society sem nú stendur yfir í Hörpu.

Helga kom m.a. inn á þær siðferðilegu spurningar sem læknarnir standa frammi fyrir á tímum þar sem löggjafinn heldur ekki í við tæknina. Flestum þyki gott að hafa stuðning í löggjöfinni en það sé á endanum alltaf læknirinn sem stendur fyrir framan fólk og segir: „Nei, þú mátt ekki.“

„Mörgum finnst það erfitt,“ segir Helga. „Sérstaklega yngri læknunum. Eldri læknarnir eru orðnir vanari. En með hverri einustu tækninýjung og hverri einustu nýju spurningu þurfa þeir að fara og hugsa: „Hvar stend ég í þessu máli?““

Það vakti athygli Helgu að læknarnir sem hún ræddi við töldu sig alls ekki bundna af erlendri löggjöf þótt viðskiptavinurinn kæmi erlendis frá. „Það er mjög skýrt í þeirra huga að lög í því landi sem þeir praktisera eru þau lög sem gilda,“ segir hún.

Skortir tilfinnanlega frekari upplýsingar

Læknarnir níu sáu bæði margar áskoranir og mörg tækifæri í læknisþjónustu þvert á landamæri, bæði fyrir skjólstæðingana, þá sjálfa og samfélagið í heild. Eitt helsta áhyggjuefni þeirra var hversu litlar upplýsingar þeir hefðu um þá sem til þeirra leita.

„Þeir höfðu áhyggjur af því að það væru að koma manneskjur til þeirra sem væru kannski ekki heppilegir foreldrar, en þeir hefðu enga möguleika, eins og hér á Íslandi eða í Danmörku, til að skoða málið. Fara og leita upplýsinga. Þá erum við að tala um manneskjur sem eru kannski með alvarleg geðræn vandamál, kannski búið að taka af þeim börnin. Og þetta veist þú ekkert um,“ segir Helga. Þeir hafi einnig haft áhyggjur af því að gæði þjónustu milli landa væri ekki sambærileg.

Helga segir að meðal þeirra tækifæra sem læknarnir sáu fyrir samfélagið var möguleikinn á að leita dýrari og flóknari meðferða erlendis. „Og útfrá þeim sjálfum þá er ákveðinn stuðningur í því að þó það sé ekki hægt að veita ákveðna þjónustu hér þá er hægt að veita hana annars staðar. Það þarf ekki að loka á alla möguleika fyrir skjólstæðinginn.“

Fyrir skjólstæðingana sé það tvímælalaust kostur að geta sótt þjónustu annað ef þeir eru ekki sáttir við það sem í boði er heima fyrir.

Læknarnir alls engir „bissnessmenn“

Ástæðan fyrir því að Helga valdi að skoða meðferðarstöðvarnar á Íslandi og í Danmörku var sérstaða þeirra, þ.e. að á Íslandi er hægt að nálgast gjafaegg og í Danmörku gjafasæði. Á þeim stöðvum sem hún heimsótti var hlutfall erlendra þjónustukaupenda í kringum 25%.

„Það sem mér fannst áhugaverðast var að þessir læknar eru ekki bissnessmenn,“ segir Helga. „Það er langt í frá. Þeir eru ekki að gera þetta af því að þeir eru í miklum bissness, þeir sjá það ekki fyrir sér að flytja inn fleira fólk til að fá meiri bissness. Og það kom mér reyndar svolítið á óvart, sérstaklega úti. Þar bjóst ég við meiru af því að það er stærra svæði og meiri samkeppni,“ segir hún.

Helga segir fjölda erlendra viðskiptavina takmarkast við getu meðferðarstöðvanna til að taka á móti skjólstæðingum. Hér heima t.d. ættum við þegar nóg með okkur.

Helga Sól Ólafsdóttir hefur m.a. starfað sem félagsráðgjafi á kvennadeild …
Helga Sól Ólafsdóttir hefur m.a. starfað sem félagsráðgjafi á kvennadeild Landspítala. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert