Það hefði verið betra að bíða

Frá Þjóðhátíð. Mynd úr safni.
Frá Þjóðhátíð. Mynd úr safni.

Lögreglan í Vestmannaeyjum mun eða hefur rannsakað þrjú kynferðisbrot sem tilkynnt voru um helgina í bænum, en þá fór fram Þjóðhátíð. Í dag fékk embættið upplýsingar um að því myndi berast þriðja kæran vegna kynferðisbrots um helgina.

Samkvæmt upplýsingum sem bárust frá embættinu fyrr í dag komu tvö kynferðisbrot til rannsóknar hjá lögreglunni á Þjóðhátíð en með brotinu, sem embættinu var tilkynnt um í dag, verða þau þrjú talsins.

Samkvæmt upplýsingum frá neyðarmóttöku nauðgana höfðu í morgun borist þrjár tilkynningar um kynferðisbrot um verslunarmannahelgina. 

Fyrri frétt mbl.is: Þrjú kynferðisbrot tilkynnt á Þjóðhátíð

Að sögn Páleyjar Borgþórsdóttir, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, var tilkynningin um þriðja málið ekki komin á borð lögreglunnar í Vestmannaeyjum þegar hún sendi frá sér tölulegar upplýsingar um hátíðina í dag. Þess vegna var ekki minnst á þriðja brotið í tilkynningu lögreglunnar.

Fyrri frétt mbl.is: Tvö kynferðisafbrot til rannsóknar

Hún segir að rannsóknardeild lögreglunnar í Vestmannaeyjum muni rannsaka þriðja málið. „Ég veit ekki hvenær kæran berst og ég veit í raun ekki hvaða mál þetta er. Mér finnst líklegt að þetta sé sama mál og neyðarmóttakan segir frá en ég á erfitt með að fullyrða það.“

Bara einn kostur eftir að neyðarmóttakan birti upplýsingarnar

Það vakti nokkra athygli fyrir helgi þegar að Páley sendi tölvupóst á viðbragðsaðila þar sem hún lagði til að þeir gæfu fjöl­miðlum eng­ar upp­lýs­ing­ar um kyn­ferðis­brot sem kunna að koma upp á Þjóðhátíð. Að sögn Páleyjar stóð alltaf til að birta upplýsingar um kynferðisbrot á hátíðinni þegar fram liðu stundir. „Það stóð alltaf til að birta þessar upplýsingar en kannski ekki í dag. Ég er ekkert sérstaklega sátt við að þurfa að birta þessar upplýsingar í dag sérstaklega í ljósi þess að í einu málinu er rannsóknin á því stigi hefðum þurft að klára ákveðin atriði áður en þetta fór í birtingu. En eftir að neyðarmóttakan veitir þessar upplýsingar þá er bara einn kostur. Hér er búinn að vera stöðugur ágangur af fjölmiðlum í allan dag. Ég sá bara að við þyrftum að koma þessu út, það var enginn vinnufriður hérna.“

Páley leggur áherslu á það að það hafi alltaf verið ætlun lögreglunnar í Vestmannaeyjum að birta upplýsingar um þessi brot. „Ég hef alltaf sagt að að þessar upplýsingar yrðu birtar þegar fram liður. Það stóð alltaf til. Við hefðum kannski gert það á morgun eða hinn en vegna þess að neyðarmóttakan birtir þessar upplýsingar þá var útilokað að sitja hérna með alla bankandi á hurðirnar.“

Hefði viljað samráð

Aðspurð hvort að hún sé ósátt með það að starfsmaður neyðarmóttökunnar hafi greint frá kynferðisbrotunum segist Páley skilja þá ákvörðun en segir jafnframt að það hefði verið betra að bíða með upplýsingarnar. „Það hefði verið betra með tilliti til rannsóknarhagsmuna að geyma þetta lengur.“

Páley leggur þó áherslu á að miklir fagmenn starfi á neyðarmóttöku nauðgana. „Það eru miklir fagmenn þarna en ég hefði viljað að þeir hefðu haft samráð við okkur vegna þeirra mála sem eru í rannsókn.“

Eins og fram kom í tilkynningu lögreglunnar fyrr í dag var einn maður handtekinn í tengslum við kynferðisbrot á Þjóðhátíð. Honum var sleppt eftir skýrslutöku og að sögn Páleyjar var enginn annar handtekinn vegna kynferðisbrots.

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert