Umræður um HIV á Hinsegin dögum

Það er oft mikið fjör á Hinsegin dögum í Reykjavík.
Það er oft mikið fjör á Hinsegin dögum í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Samtökin HIV-Ísland standa fyrir opnum umræðufundi um HIV á Hinsegin dögum. Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri samtakanna, mun þá flytja stutt ávarp, en að því loknu hefjast umræður. Þá verða einnig starfsmenn smitsjúkdómadeildar Landspítalans í Fossvogi á staðnum og taka þeir á móti skráningu í HIV-próf.

„Ég held það hafi ekki áður verið sérstaklega fjallað um HIV í tengslum við Hinsegin daga hér á Íslandi. En það þekkist þó víða annars staðar,“ segir Einar Þór í samtali við mbl.is og bendir á að þema hátíðarinnar í ár sé „heilsa og heilbrigði.“ Er viðburðurinn því sprottinn upp úr þema hátíðarinnar.

Aðspurður segir Einar Þór markmið umræðufundarins einkum það að fá fólk til þess að mæta, taka þátt í virkri umræðu um HIV og deila reynslu sinni og skoðunum. „Þetta á að vera lifandi umræða. Við ætlum að bjóða upp á kaffi og hafa umhverfið svolítið afslappað og þægilegt.“

Fram kemur í dagskrárriti Hinsegin daga í ár að á staðnum verði einnig starfsfólk smitsjúkdómadeildar Landspítalans í Fossvogi og að „allir get[i] farið í HIV-próf sér að kostnaðarlausu.“ Spurður hvort til standi að safna blóðsýnum úr þeim sem það vilja á staðnum kveður Einar Þór nei við.

„Það stóð til að gera það, en fólk getur hins vegar pantað sér [tíma í HIV-próf] og farið strax næsta dag upp á smitsjúkdómadeild. Þetta kostar ekkert og maður fær svarið strax daginn eftir,“ segir hann og bætir við að með þessu sé verið að hvetja fólk til þess að fara í skimun.

Umræðan verður haldin í Iðnó, að Vonarstræti 3 í Reykjavík, næstkomandi fimmtudag klukkan 18.

Samtökin HIV-Ísland voru stofnuð árið 1988 og eru félagsmenn nú um 300 talsins. Var þeim komið á fót til þess að auka þekkingu og skilning á HIV og alnæmi og til að styðja sjúka og aðstandendur þeirra. Eitt mikilvægasta verkefni félagsins er skipulögð fræðsla um HIV og stöðug vinna gegn fordómum

Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-Ísland.
Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-Ísland. mbl.isEggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert