Ungmenni í vímu á stolnum bíl

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Tilkynnt var um umferðarslys á Kjalvegi í nótt, en þar hafði bifreið verið ekið út af veginum. Inni í bílnum voru ungmenni og sluppu þau án teljandi meiðsla. Grunur leikur á að fólkið hafi allt verið undir áhrifum fíkniefna og að bifreiðin sé stolin.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er fólkið sem um ræðir rúmlega tvítugt og er það grunað um neyslu vímuefna. Sem stendur eru litlar upplýsingar að fá um málið, en einn liður rannsóknar lögreglu snýr meðal annars að því hvort ökutækið sé stolið.

Mikill erill hefur verið hjá lögreglunni á Suðurlandi um helgina og þá einkum í tengslum við umferð. Lögreglumenn frá Hvolsvelli héldu til að mynda uppi öflugu eftirliti með umferð og voru fjölmargir ökumenn stöðvaðir við Landeyjahöfn að lokinni Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Margir þeirra sem stöðvaðir voru reyndust ekki hæfir til aksturs, en fjöldi þeirra liggur sem stendur ekki fyrir að sögn lögreglu.

Þá var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð út seint í gærkvöldi vegna ungmenna sem léku sér að því að skjóta úr riffli og loftriffli við Þingvallavatn. Greint var frá þessu á mbl.is í morgun.

Ungmennin voru handtekin á Mosfellsheiði á leið sinni til Reykjavíkur. Skotvopnin eru í eigu föður eins þeirra og virðist sem þau hafi verið tekin í leyfisleysi.

Þeim hefur nú verið sleppt úr haldi og vinnur lögreglan að rannsókn málsins. Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert