Á skíðum um verslunarmannahelgi

Það eru eflaust fáir sem hafa prófað það að skíða á hálendinu, hvað þá um mitt sumar en það er einmitt það sem Hilmar Antonsson gerði um verslunarmannahelgina ásamt eiginkonu sinni. Þau  hjónin skelltu sér á Öskju á gönguskíðum og skemmtu sér konunglega.

„Þetta var mjög skemmtileg upplifun, að fara á gönguskíði um verslunarmannahelgi. Það er ekki oft sem maður fær tækifæri til þess,“ segir Hilmar í samtali við mbl.is en hann er formaður Ferðafélags Akureyrar. Félagið hafði skipulagt skíðaferð upp að Öskju um helgina með skömmum fyrirvara en vegna ónógrar þátttöku var hún felld niður. Þrátt fyrir það ákváðu hjónin að skella sér á skíðin. Hilmar segir að aðstæður hafi verið mjög góðar til skíðaiðkunar á Öskju.

„Það var mjög gott rennsli, alveg silkifæri,“ segir hann en þau voru einu á Öskju á skíðum. „Það var fullt af gangandi fólki í frekar þungu göngufæri. Þeir sem voru búnir að labba inn eftir og til baka voru pínu þreytulegir.“

Hilmar segir að aðstæður séu vissulega óeðlilegar í Öskju þetta sumarið en þar er snjór yfir öllu. „Ég hef aldrei vitað af svona miklum snjó í Öskju á þessum árstíma,“ segir Hilmar.

Aðspurður hvort að hann vonist til þess að endurtaka leikinn næsta sumar svarar Hilmar því neitandi. „Allra ferðamannanna vegna vona ég að það verði ekki svona mikill snjór að ári, þó þetta hafi verið skemmtilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert