Andlát: Hrafn Tulinius yfirlæknir krabbameinsskrár og prófessor

Hrafn Tulinius.
Hrafn Tulinius.

Hrafn Tulinius læknir lést að morgni föstudagsins 31. júlí sl., 84 ára að aldri.

Hrafn Tulinius fæddist í Reykjavík, 20. apríl 1931, sonur hjónanna Hallgríms A. Tulinius stórkaupmanns og Margrétar Jóhannsdóttur Tulinius.

Hrafn nam læknisfræði við Háskóla Íslands og fór í sérnám í meinafræði í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Eftir að námi lauk kenndi hann við læknadeild Albany Medical College í New York í nokkur ár og starfaði um skeið við Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg. Árið 1969 var hann ráðinn til starfa sem vísindamaður við International Agency for Research on Cancer (Alþjóðlegu krabbameinsstofnunina) sem heyrir undir World Health Organization, Alþjóðlega heilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar starfaði hann að rannsóknum á faraldsfræði krabbameina þar til hann flutti til Íslands 1975 til að taka við stöðum yfirlæknis Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands og prófessors í heilbrigðisfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Þeim stöðum gegndi hann þar til hann hætti störfum fyrir aldurs sakir.

Hrafn var leiðandi í rannsóknum á sviði faraldsfræði krabbameina hér á landi um árabil, og undir stjórn hans efldist Krabbameinsskráin, m.a. með víðtæku alþjóðlegu og norrænu samstarfi. Rannsóknir hans og samstarfsfólks hans á faraldsfræði og erfðum brjóstakrabbameins á Íslandi eru kunnar á alþjóðlegum vettvangi. Hrafn var höfundur fjölmargra vísindagreina og bókarkafla.

Eftirlifandi eiginkona Hrafns er Helga Brynjólfsdóttir Tulinius. Börn þeirra eru Már, prófessor í barnalækningum við Gautaborgarháskóla, Torfi, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands, Þór, leikari og leikstjóri, og Sif Margrét, annar konsertmeistari við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Guðný Helga dóttir þeirra lést 1986.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert