„Hann féll fyrir eigin hendi“

Fanný Kristín Heimisdóttir ætlar að skokka 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu. Á sama tíma safnar hún áheitum fyrir Birtu sem eru landssamtök foreldra sem misst hafa börn eða ungmenni í skyndilegum dauðdaga. Sjálf missti hún ungan mann sem féll fyrir eigin hendi.

„Ég missti son minn í mars. Hann féll fyrir eigin hendi. Hann var ekki barn en var ungur maður og ég valdi Birtu vegna þess að samtökin styðja við foreldra sem hafa misst börn sín í skyndilegum dauðdaga,“ segir Fanný við mbl.is.

„Maður hugsar þegar svona gerist, hvað gæti verið verra en það sem kom fyrir mig? Þá hugsa ég að það er aldrei hægt að segja svona verra/betra á einhverjum skala. Það hlýtur að vera hræðilegt að missa lítið barn sem maður hefur ennþá svo mikla verndartilfinningu gagnvart.“

Fanný er í samtökunum, Birtu, og tilkynnti þeim að hana langaði að hlaupa og safna fé fyrir samtökin. „Söfnunin hefur hingað til gengið mjög vel og ég er með stóra styrktaraðila en það er líka mikilvægt að muna að margt smátt gerir eitt stórt.“

Hægt er að heita á Fanný hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert