Ítrekað látinn sæta nálgunarbanni

Hæstiréttur vísaði frá kæru lögfræðings manns sem er gert að sæta brottvísun af heimili sínu og nálgunarbanni þar sem kærufrestur var útrunninn þegar kæran barst. 

Kærður var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. júlí sl. þar sem staðfest var ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tveimur dögum áður um brottvísun og nálgunarbann mannsins í fjórar vikur. 

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt upplýsingum lögreglu liggi maðurinn nú undir rökstuddum grun um að hafa veist að eiginkonu sinni með því að hafa hent í hana frosnu kjöti sem lent hafi á innanverðum vinstri ökkla hennar. Er lögregla kom á vettvang hafi konan setið grátandi á stól í eldhúsinu og haldið um ökklann á sér.

Hún sýndi lögreglumönnum ljótt mar á vinstri upphandlegg sínum sem hún kvæðist hafa fengið nokkrum dögum fyrr er eiginmaðurinn kastaði í hana eins kílós sykurkari. Maðurinn neitaði þessu við yfirheyrslu og sagði að konan hefði sjálf veitt sér áverkana með buffhamri.

Í byrjun maí var manninum einnig gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni gagnvart konunni í fjórar vikur með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafði hann ráðist á konu sína og son hennar og beitt þau ofbeldi.

Óttaðist að vera send úr landi

Hið sama var í mars, en þá hafði hann hent konunni út af heimili sínu og eigum hennar í kjölfar þess að hafa beitt hana ofbeldi. Þrír synir hennar staðfestu ofbeldið við lögreglu. Í nóvember var konan flutt á slysadeild vegna áverka eftir ofbeldi af hálfu mannsins. Lögregla var jafnframt kölluð á heimili þeirra í ágúst í fyrra en þá greindi konan frá því að þau hefðu verið gift síðan árið 2008 en ekki hafið sambúð fyrr en árið 2012. Að sögn konunnar drekkur maðurinn áfengi nánast upp á hvern dag og breytist undir áhrifum í annan mann sem beitir hana andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Hún sagðist vera hrædd og ekki þora að gera neitt, m.a. vegna hræðslu við að vera send úr landi. Sagði hún manninn oft hafa lagt hendur á sig en fyrst og fremst hefði hann þó beitt hana andlegu ofbeldi. Þá hefði hún greint frá því að hún sæi um allt á heimilinu og þyrði ekki annað en að standa sig af ótta við að hann brygðist illa við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert