Á sér hvergi hliðstæðu í sögunni

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er vinsæll staður til áningar á leið …
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er vinsæll staður til áningar á leið um Suðurland. mbl.is/Ómar

Jöklar heimsins hopa nú af miklum krafti. Hvort sem litið er til Himalaja- eða Andesfjallanna, Alpanna í Evrópu eða Klettafjalla í Norður-Ameríku, þá virðist ísinn vera að hverfa aftur upp til fjalla, þaðan sem hann kom. Þessi mikla bráðnun eykst hratt og á sér hvergi hliðstæðu í sögunni, segja vísindamenn í nýrri grein í Journal of Glaciology.

Á undanförnu ári hafa þessir vísindamenn borið kennsl á aukið magn bráðnunarvatns og ógnvekjandi tilfelli jökulhops um allan heim. Þá hafa þeir einnig tekið eftir skriðjöklum sem virðast vera að auka hraðann niður í mót. Þannig sýna nýjustu rannsóknir að Jakobshafnarjökullinn á Grænlandi færist nú um 46 metra á dag, eða 17 kílómetra á ári. Er það tvöfaldur hraði á við árið 2003 sem þó var tvöfaldur hraði á við árið 1997.

Öll gögn þeirra vísindamanna sem starfa við jöklarannsóknir virðast því renna að sama ósi. Jöklarnir eru á undanhaldi í öllum heimshornum, og þeir hafa aukið hraðann til muna síðustu ár.

Grænlandsjökull er víðfeðmur og óvæginn. Nú virðist sem hann bráðni …
Grænlandsjökull er víðfeðmur og óvæginn. Nú virðist sem hann bráðni æ hraðar. mbl.is/RAX

Varpar nýju ljósi á stöðu jöklanna

Oddur Sigurðsson jarðfræðingur er einn aðstandenda rannsóknarinnar, sem breska dagblaðið Guardian fjallaði um í vikunni. Í samtali við mbl.is segir Oddur að rannsóknin varpi nýju ljósi á stöðu jöklanna í heiminum. 

„Hún tekur saman gögn sem hingað til hafa verið á nokkru reiki. Það hafa ekki öll ríki verið dugleg að safna upplýsingum um sína jökla og það er því mjög gagnlegt að fá svona greinargóða samantekt.“

Vísindaleg skilgreining á jökli er svohljóðandi, að sögn Odds: „Jökull er snjó- og ísmassi sem er nógu þykkur til að hníga undan eigin fargi.“ Og þá gerast merkilegir hlutir. „Við það breytast kristallarnir í seigfljótandi vökva og geta því hnigið til án þess að brotna. Að geta hnigið undan eigin fargi er því það sem skilur á milli jökuls og snjós.“

Snjóskaflar geta því verið til staðar áratugum eða öldum saman, án þess að nokkurn tímann geta talist jökull.

Í iðrum Vatnajökuls má finna ýmsa leyndardóma sem faldir hafa …
Í iðrum Vatnajökuls má finna ýmsa leyndardóma sem faldir hafa verið öldum saman. Búist er við að jökullinn verði horfinn eftir tvær aldir. mbl.is/RAX

Bráðnun jökla er ör hér á landi

Eins og áður var greint frá, fullyrða aðstandendur rannsóknarinnar að hin hraða bráðnun jökla eigi sér enga hliðstæðu í sögunni. Oddur útskýrir að þar sé aðeins átt við mannkynssöguna. „Bráðnunin á sér ekki hliðstæðu í þeirri sögu sem við þekkjum. Hún var meiri í lok ísaldar, en í skráðri sögu jökla- og loftslagsmælinga þá finnst ekkert þessu líkt.“

Aðspurður í hvaða heimshluta bráðnunin sé hvað hröðust nefnir Oddur kunnuglegar slóðir. „Talið er að jökulhopið sé allra mest við heimskautin, þá sérstaklega í kringum norðurheimskautið. Það er mjög ört hér á landi til dæmis og í raun á öllu norðurhvelinu,“ segir Oddur.

Hann bætir við að þróunin virðist hægari á suðurhveli jarðar. „Fyrst og fremst er þar Suðurskautsjökullinn sem er öðruvísi í eðli sínu en allir aðrir jöklar heimsins. Hann er svo stór og hægbreytilegur að það er erfitt að segja til um hvort hann sé í raun að minnka eða ekki. Þó er nokkuð víst að vesturhluti hans sé að minnka en ekki eins víst með hinn stóra austurhluta.“

Bráðnun Vatnajökuls hefur valdið umtalsverðu landrisi við núverandi jaðar jökulsins.
Bráðnun Vatnajökuls hefur valdið umtalsverðu landrisi við núverandi jaðar jökulsins. mbl.is/RAX

Getur haft áhrif á lífríkið í sjónum

Í kringum jökla þrífst ekki mikið líf. Hvarf þeirra getur þó haft hræðilegar afleiðingar fyrir lífkerfið við Ísland. „Það getur verið að aur sem berst með jökulám til sjávar hafi töluverð áhrif á lífríkið í sjónum í kringum Ísland. Talið er að í aurnum sé mikið af næringarefnum sem eru mikilvæg fyrir sjávarlífið,“ segir Oddur.

Í útreikningum er gert ráð fyrir að íslenskir jöklar verði að mestu leyti horfnir að tveimur öldum liðnum. „Eftir verða kannski smájöklar á allra hæstu fjöllum, eins og á Bárðarbungu, Öræfajökli, í Kverkfjöllum og Hofsjökli. Langjökull verður þá horfinn og allir smærri jöklar sömuleiðis.“

Langjökull verður að öllum líkindum fyrsti stóri jökullinn til að hverfa. Hann er lægri en hinir stóru jöklarnir og þykir því viðkvæmari fyrir þessum breytingum. Þessir stóru jöklar þynnast að jafnaði um einn metra á ári um þessar mundir.

Tilkomumikil upplifun getur falist í að skoða náttúrulega íshella í …
Tilkomumikil upplifun getur falist í að skoða náttúrulega íshella í Langjökli. Að öllum líkindum verður hann fyrstur stóru jöklanna til að hverfa. mbl.is/Árni Sæberg

Stefnir í jákvæðan jöklabúskap

Oddur segir þó að í ár stefni í að jöklabúskapur verði jákvæður, í fyrsta sinn á þessari öld. „Ég held að árið í ár verði það fyrsta í tvo áratugi þar sem jöklarnir vaxa. Bæði var mikill snjór í vetur og svo hefur sumarið verið óvenjukalt.“

Ef athyglinni er beint að heiminum er myndin þó skýr eins og áður sagði. Margir jöklar hafa þegar verið dauðadæmdir. Á undanfarinni öld hefur meðalhiti jarðar hækkað um næstum eina gráðu, sökum gríðarlegrar notkunar jarðefnaeldsneytis sem veldur gróðurhúsaáhrifum í lofthjúpnum.

Og jafnvel þó að mannfólkið myndi núna falla algjörlega frá áframhaldandi notkun, er ólíklegt að bráðnunin myndi hætta líka. „Jöklar í mörgum heimshlutum munu að öllum líkindum þurfa að þola frekari bráðnun, jafnvel þó að loftslagið haldist óbreytt,“ segja vísindamennirnir í lok greinarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert