30-40 þúsund fögnuðu fjölbreytileikanum

Páll Óskar leið um miðborgina á bleiku glimmerskipi.
Páll Óskar leið um miðborgina á bleiku glimmerskipi. mbl.is/Eva Björk

Íslendingar létu lítils háttar vætu ekki á sig fá og flykktust í miðborgina til að taka þátt í gleðigöngunni sem hófst um tvöleytið í dag. Árni Friðleifsson, varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, áætlar að 30-40 þúsund manns hafi verið í bænum þegar mest lét.

„Þetta gekk gríðarlega vel, allt til fyrirmyndar og mikil stemning. Veðrið lagaðist þegar leið á, en þetta var eitthvað færra en í fyrra enda var ljómandi blíða þá. Við erum hins vegar mjög ánægð með framkvæmdina og gestir skemmtu sér vel rétt eins og okkar fólk,“ segir Árni. Lögregluþjónar óku venju samkvæmt fylktu liði fremstir í göngunni, á mótorhjólum með regnbogafána. 

Leið áfram á bleiku glimmerskipi

Viðmælendur mbl.is voru almennt ánægðir með hátíðarhöldin og voru flestir mættir til að styðja góðan málstað og berja glaðlega litadýrðina augum. „Ég er hér til að fagna fjölbreytileikanum,“ sagði Sóley María Helgadóttir og lagði þar tóninn fyrir orð annarra gesta.

Fjölbreytileikann skorti sannarlega ekki í göngunni sem hélt allt frá Gömlu Hringbraut, niður Lækjargötu og endaði með miklu fjöri við Arnarhól. Á vögnum í göngunni voru m.a. skátar, hópur úr Vinnuskóla Hafnarfjarðar, BDSM-áhugafólk og tónleikavagn frá skemmtistaðnum Kíkí. Í fararbroddi var síðan tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson ásamt föruneyti á bleiku glimmerskipi sem vakti mikla kátínu viðstaddra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert