Hóf strax afplánun á eldri dómi

Frá aðgerðum lögreglunnar í gærkvöldi og í nótt.
Frá aðgerðum lögreglunnar í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Styrmir Kári

Maðurinn sem var handtekinn af sérsveit lögreglunnar í Vallahverfinu í gær eftir umsátursástand hefur hafið afplánun á 10 mánaða dómi sem hann hlaut fyrr á þessu ári. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri í Hafnarfirði við mbl.is

Í dag var maðurinn yfirheyrður, en Margeir segir að ekkert nýtt hafi komið fram við það. Segir hann að skoðað hafi verið hvaða leið væri sú besta í stöðunni, sem einnig væri sú minnst íþyngjandi fyrir viðkomandi og hafi niðurstaðan verið að hann myndi hefja afplánun dómsins strax.

Venjulega þarf Fangelsismálastofnun að gefa brotamönnum þriggja vikna tíma í aðlögun áður en afplánun hefst, en heimild er að vista menn strax ef um alvarleg brot er að ræða. Margeir segir að þessi heimild hafi verið nýtt í þessu máli.

Málið sem upp kom í gær verður nú skoðað af ákærusviði og verður ákveðið hvort að ákæra verður gefin út.

Margeir segir að ekki hafi stafað hætta af manninum í gær gagnvart nágrönnum og að lögreglumenn á staðnum hefðu gripið strax inn í ef eitthvað slíkt hefði komið upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert