Ekki fyrsta atrenna meints kattakvalara

Theodora telur að eitrað hafi verið fyrir Morgann litla.
Theodora telur að eitrað hafi verið fyrir Morgann litla. Ljósmynd/Theodora Ponzi

Í það minnsta sex kettir hafa drepist með örstuttu millibili í Hveragerði og telja eigendur sig hafa rökstuddan grun um að eitrað hafi verið fyrir þeim. Einn hinna syrgjandi eigenda, Theodora Ponzi, telur að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem eitrað hafi verið fyrir köttum í bænum.

„Í október í fyrra veiktist eldri kötturinn okkar. Það byrjaði þannig að hann var rosalega slappur, hætti að borða og hætti eiginlega bara öllu. Við fórum með hann til dýralæknis en það var ekkert hægt að gera,“ segir Theodora.  „Svo tek ég eftir að yngri kötturinn er tekinn upp á þessu sama, lá bara allan daginn á sama staðnum og var mjög slapplegur. Þegar við komum til dýralæknisins var hann ekki með neina nýrnastarfsemi. Hann kom ekki með okkur heim aftur.“

Theodora hélt í fyrstu að sömu sorglegu en náttúrulegu veikindin hefðu hrjáð yngri köttinn, Morgann, og þann eldri. Morgann reyndist hinsvegar sá fyrsti í röð katta sem veiktust skyndilega í liðinni viku og drápust skömmu síðar.

„Á laugardagsmorguninn kemur nágranni okkar og spyr hvort það sé allt í lagi með köttinn okkar. Þegar við neitum segir hún okkur að kötturinn hennar hafi líka verið að deyja og að það hafi verið blátt fiskflak á lóðinni. Kötturinn hennar dó úr miklum flogum.“

Sex kettir dauðir og fleiri veikir

Grunur leikur á að fiskflökin hafi legið í frostlegi. Í það minnsta sex kettir í hverfinu eru nú dauðir og fleiri hafa veikst. Theodora hefur reynt að vara nágranna sína, sem og aðra bæjarbúa við með því að setja upplýsingar um málið á Facebook og ganga í hús.

„Ég varaði fólk við að fara vel yfir garðana því það eru ungabörn í flestum húsum og hundar og kettir,“ segir Theodora og bætir því við að hún hafi heyrt af mörgum veikum hundum í bænum. „Ég hitti mann með veikan kött þegar ég var að ganga í hús sem kom til mín seinna um kvöldið. Þá hafði kötturinn dáið.“

Eins og áður segir grunar Theodoru nú að ekki hafi verið allt með felldu þegar eldri kötturinn hennar drapst. Segir hún einkennin við veikindi kattanna hafa verið nákvæmlega eins og að þó svo að ekki hafi fengist úr því skorið á sínum tíma hvað varð kisa að bana þykist hún viss um að eitrað hafi verið fyrir honum.

„Fyrst hugsuðum við að það væri einhver að reyna að eitra fyrir mávum en það eru tveir innikettir búnir að deyja, kettir sem fara ekki einu sinni út. Báðir eigendurnir sögðu mér að kettirnir héldu alltaf til í sama glugganum á hlið hússins. Svo það hefur að öllum líkindum einhver sett eitthvað í gluggann. Þetta er rosalega óhugnanlegt.“

„Fólk er mjög smeykt“

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er hræ eins kattarins nú til rannsóknar á Keldum og mun stofnunin kæra málið til lögreglu, reynist grunur eigendanna um eitrun á rökum reistur. Lögreglan hefur þegar haft afskipti af málinu og segir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir Matvælastofnunar að málið 45. grein laga um dýravernd þar sem fram kemur að brot gegn lögunum geti varðað allt að tveggja ára fangelsi sé um ítrekuð brot að ræða.

Mikil umræða hefur spunnist um málið á samfélagsmiðlum og hafa einhverjir jafnvel fagnað hinum meintu eitrunum. Af fyrrnefndum lögum er þó ljóst að athæfið er ólöglegt og eins og Theodora bendir á er það einnig hættulegt mannfólki.

„Fólk er mjög smeykt. Hér er ekki bara verið að ráðast á ketti sem fara út heldur líka ketti sem hafa aldrei farið út. Það er verið að setja eitraðan mat í garðana okkar. Fólk fer með hundana sína út í garð og sumir hleypa köttunum sínum bara út í sinn garð í ól. Við förum með börnin okkar út í garð en nú þorum við ekki í garðana. Þetta er skelfilegt og það er aldrei réttlætanlegt að drepa dýr.“

Íbúar í Hveragerði hræðast nú að hleypa dýrum og börnum …
Íbúar í Hveragerði hræðast nú að hleypa dýrum og börnum í garða bæjarins. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Styrmir Kári
Jafnvel innikettir virðast hafa orðið fyrir barðinu á hinum meinta …
Jafnvel innikettir virðast hafa orðið fyrir barðinu á hinum meinta kattarmorðingja. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert