Tveir flagarar handteknir við Höfn

Mennirnir höfðu farið ránshendi um nokkra þéttbýlisstaði á Norður- og …
Mennirnir höfðu farið ránshendi um nokkra þéttbýlisstaði á Norður- og Austurlandi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tveir karlmenn voru handteknir af við Lón nálægt Höfn í Hornafirði í dag, en þeir eru grunaðir um að hafa staðið á bak við þjófnað úr verslunum á Blönduósi, Sauðárkróki og Eskifirði, auk þess sem verið er að skoða mál frá Akureyri sem gæti tengst mönnunum. Hafði annar mannanna, samkvæmt lögreglu, nýtt sér persónutöfra sína til að afvegaleiða afgreiðslufólk þannig að annaðhvort hann gæti smeygt sér í peningakassa verslananna eða samferðamaður hans.

Stálu bæði úr veski starfsmanns og kassa verslunar

Á laugardaginn var fyrst tilkynnt um þjófnað mannanna á Blönduósi, en þá höfðu þeir stolið töluverðum fjármunum úr versluninni Húnabúð. Bæði var stolið úr peningakassa verslunarinnar og úr veski starfsmanns.

Eru mennirnir grunaðir um að hafa seinna komið við á Sauðárkróki og haldið þar uppteknum hætti. Í dag var svo tilkynnt um að einn maður hafi leikið svipaðan leik í verslun Samkaupa á Eskifirði. Var maðurinn sagður útlendingur og passaði lýsing mannsins að öðru leyti við einn þann grunaða úr fyrri málunum.

Slógu ryki í augu afgreiðslufólks

Jónas Wilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglustjóranum á Austurlandi, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi rétt misst af mönnunum á Eskifirði, en talið sig hafa nægjanlegar upplýsingar til að bera kennsl á bæði manninn og ökutækið sem þeir voru á. Það var nógu mikið til að fara í aðgerðir og stoppaði lögreglan á Höfn mennina stuttu seinna á leiðinni suður. Segir hann að rannsókn málsins sé nú í höndum þess embættis.

Mennirnir eru fæddir árið 1972 og 1993. Sá yngri var einn að verki á Eskifirði, en Jónas lýsir aðferðum hans þannig að hann hafi slegið ryki í augu afgreiðslustúlkna til að fá þær til að fara frá. Þá hafi honum tekist að komast í kassann og fjármuni. Nýtti hann sér þannig sjarma sinn til að afvegaleiða afgreiðslufólkið, en það eru svipaðar aðferðir og mennirnir höfðu notað saman á Blönduósi.

Ekki var um háa upphæð að ræða á Eskifirði, en Jónas segir að þjófarnir hafi komist undan með um 40 þúsund krónur.

Frá Eskifirði þar sem síðasti þjófnaðurinn var framinn fyrir handtöku …
Frá Eskifirði þar sem síðasti þjófnaðurinn var framinn fyrir handtöku mannanna. Sigurður Bogi Sævarsson
Fyrst varð vart um ferðir mannanna á Blönduósi um helgina.
Fyrst varð vart um ferðir mannanna á Blönduósi um helgina. Ljósmynd/Jón Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert