„Lögreglan hélt hátíðargestum í heljargreipum“

Aðstandendur hátíðarinnar voru óánægðir með aðgerðir lögreglu.
Aðstandendur hátíðarinnar voru óánægðir með aðgerðir lögreglu. mbl.is/Eggert

Aðstandendur tónlistarhátíðarinnar Extreme Chill Festival hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna framkomu lögreglu og fréttaflutnings á meðan hátíðinni stóð. „Hátíðin sem hefur verið haldin frá árinu 2009 hefur alltaf farið fram í góðri samvinnu við bæjarfélagið og lögreglu fram að þessu.

Segir ennfremur að aldrei hafi komið upp ofbeldismál eða önnur lögreglumál á þessari litlu raftónlistarhátíð. „Í ár hélt lögreglan hátíðargestum okkar í heljargreipum frá því að þeir komu á svæðið, og fór að okkar mati offari. Við tókum á móti fjölda fólks í áfalli í anddyri hátíðarsvæðisins sem treysti sér ekki aftur á tjaldsvæðið sökum ágangs og valdníðslu lögreglumanna að þeirra sögn.“

Aðstandendur hátíðarinnar segjast hafa boðið lögreglu inn á hátíðarsvæðið seint á laugardagskvöld en lögregla hafi frekar viljað gægjast inn um glugga. „Þessi aðför lögreglunnar að hátíðinni kom okkur algjörlega í opna skjöldu og erum við miður okkar og í áfalli vegna þessa. Þess má geta að fíkniefnabrot sem getið er í fjölmiðlum voru framin á tjaldsvæði bæjarfélagsins en ekki á hátíðarsvæðinu.“

Ennfremur eru ólöglegar aðgerðir lögreglu til skoðunar. „Í skoðun eru nokkur myndbrot sem tekin voru á tjaldsvæðinu þar sem hugsanlega ólöglegar aðgerðir lögreglu voru teknar upp af hátíðargestum og hafa aðstandendur hátíðarinnar fengið formann Snarrótarinnar, samtök um borgaraleg réttindin í lið með sér til að skoða einstaka atvik og mun einnig leita eftir lögfræðiáliti til að meta hvort málið verður tekið lengra.“

Hátíðin sjálf hafi gengið vel í alla staði og vilja aðstandendur þakka þeim sem komu og nutu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert