Allt stopp vegna rafmagnsskorts

Senda þurfti helming afla Sigurðar VE í bræðslu í gærkvöld …
Senda þurfti helming afla Sigurðar VE í bræðslu í gærkvöld vegna skorts á rafmagni. Mynd/Ísfélag Vestmannaeyja hf.

Starfsemi í frystihúsi Ísfélags Vestmannaeyja hefur legið niður frá því í gærkvöldi, eða þegar útleysing varð á Rimakotslínu 1 og straumlaust var í Vestmannaeyjum. Senda var helming afla Sigurðar VE í bræðslu þar sem ekki var hægt að vinna makrílinn í rafmagnslausri vinnslustöðinni og frysta hann að vinnslu lokinni.

Raf­magn komst fljót­lega á aft­ur og dísil­vél­ar voru ræst­ar í Vest­manna­eyj­um og í Vík. Vélarnar eru þó ekki nógu öflugar til að útvega fiskvinnslum rafmagn til frystingar og því er lítið hægt að vinna hjá Ísfélaginu og Vinnslustöðinni í dag. Samkvæmt upplýsingum frá HS veitum hefur spennir Landsnets sem bilaði í gærkvöldi verið laskaður í tíu ár og því ekki geta starfað á fullum afköstum. 

Frétt mbl.is: Alvarleg bilun hjá Landsneti

Í tilkynningu sem birt var á vefsíðu Landsnets eftir hádegi í dag kemur fram að rafmagn sé hjá almennum notendum í Vestmannaeyjum en skerða hafi þurft afhendingu rafmagns til notenda sem eru á skerðanlegum flutningssamningum í Eyjum. Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri hjá Ísfélagi, segir upplýsingarnar rangar enda sé fyrirtækið síður en svo á skerðanlegum samningum.

„Við erum stopp með vinnsluna, við fáum ekki rafmagn til að frysta makrílinn og náðum bara rétt að fá rafmagn til að klára það sem var inni í frystihúsinu. Það þurfti að stöðva löndun og setja aflann í bræðslu,“ segir Eyþór í samtali við mbl.is. Bilunin varð um klukkan átta í gærkvöldi.

Ætluðu að vinna á báðum stöðum

Eyþór segir að þetta hafi í för með sér nokkurt tap fyrir fyrirtækið þar sem meira fáist fyrir fiskinn þegar hann er verkaður og frystur en þegar hann er bræddur. „Það er ómögulegt að geta ekki unnið þegar menn vilja vinna,“ segir Eyþór.

Von var á Álsey VE til hafnar í Vestmannaeyjum en í staðinn fór skipið til hafnar á Þórshöfn þar sem Ísfélagið er einnig með vinnslustöð. Til stóð að vinna á báðum stöðum og segir Eyþór að hægja verði á starfseminni þar til hægt verður að koma rafmagni á á ný.  

350 tonn af makríl bíða við höfnina

„Við erum með algjöra lágmarksvinnslu og að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Við getum ekki fryst makríl, við getum ekki unnið fisk á fullum afköstum,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Þegar bilunin varð í gærkvöldi unnu starfsmenn að frágangi eftir daginn en afboða þurfti allar vaktir í dag.

Ekki er hægt að verka og frysta 350 tonn af markíl sem bíða í skipi sem lagði að höfn í Vestmannaeyjum í morgun. Sigurgeir segir ekki hægt að bíða lengi með aflann en fyrirtækið mun fá frekari upplýsingar þegar líður á daginn og verður þá tekin ákvörðun um framhaldið.

Uppfært kl. 15.16

Spennirinn laskaður í tíu ár

Allar sex díselvélar HS veitna í Vestmannaeyjum voru ræstar í gærkvöldi þegar straumlaust varð. Þar með er hægt að veita heimilum rafmagn en til að mynda var slökkt á götuljósum í Vestmannaeyjum í nótt  til að spara rafmagn.

Kostnaðarsamt er að veita rafmagn á þennan hátt og mun Landsnet bera þann kostnað, samkvæmt upplýsingum frá HS veitum. Vélarnar eru ekki nógu öflugar til að veita rafmagn til frystingar og því hefur starfsemi að mestu legið niður hjá Ísfélaginu og Vinnslustöðinni í dag.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem bilun kemur upp í þessum tiltekna spenni Landsnets í Rimakoti á Landeyjasandi. Samkvæmt upplýsingum frá HS veitum hefur hann verið laskaður í tíu ár og ekki getað starfað á fullum afköstum og eru starfsmenn síður en svo ánægðir með stöðu mála.

Starfsfólk Vinnslustöðvarinnar reynir að bjarga því sem bjargað verður.
Starfsfólk Vinnslustöðvarinnar reynir að bjarga því sem bjargað verður. Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert