Laun bæjarstjóra hækkuðu um 27,7%

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði
Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn

Laun bæjarstjóra Hafnarfjarðar hækkuðu um tæplega 28% á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við fyrri hluta síðasta árs. Þetta kemur fram í bókun minnihluta Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eftir að hafa lagt fram fyrirspurn sem var svarað á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í dag.

Í svari bæjarstjórans er hækkunin sögð vera 15%, en því er minnihlutinn ósammála og bendir á að inn í þeirri tölu séu laun sem fyrrum bæjarstjóri fékk fyrir setu sem kjörinn bæjarfulltrúi, sem sé ekki sambærilegt við núverandi bæjarstjóra, enda hafi hann engar skyldur að sitja bæjarstjórnarfundi og bærinn greiði nú sem áður ellefu kjörnum fulltrúum laun fyrir þessa setu.

Laun bæjarstjórans, Haraldar L. Haraldssonar, voru á fyrstu sex mánuðum þessa árs 8,5 milljónir, en á sama tíma í fyrra voru laun bæjarstjóra 6,7 milljónir. Nemur hækkunin um 27,3%. Þá hækkaði bifreiðastyrkur um 86,6%, úr 186 þúsundum í 348 þúsund. Samhliða hækkuðum launum fóru launatengd gjöld úr 1,39 milljónum í 1,7 milljónir. Samtals voru því laun, fríðindi og launatengd gjöld bæjarstjórans 10,58 milljónir á fyrri hluta ársins, samanborið við 8,28 milljónir í fyrra.

Eins og fyrr segir er útreikningurinn í svari bæjarstjórans öðruvísi og er þar bætt við upphæð sem þáverandi bæjarstjóri fékk fyrir setu í bæjarstjórn og launatengd gjöld vegna þess. Heildarupphæð þess var 902 þúsund krónur. Engar slíkar greiðslur eiga sér stað til bæjarstjóra í ár, þar sem hann er ekki kosinn fulltrúi. Séu þessar greiðslur teknar með í útreikningum voru heildarlaun fyrrverandi bæjarstjóra á fyrstu sex mánuðum síðasta árs 9,18 milljónir og er þá hækkunin 15% í stað 27,7%.

Útreikningur á launum bæjarstjóra Hafnarfjarðar á fyrstu sex mánuðum áranna …
Útreikningur á launum bæjarstjóra Hafnarfjarðar á fyrstu sex mánuðum áranna 2014 og 2015 miðað við röksemdir minnihlutans. Mynd/Mbl.is
Samanburður á launum bæjarstjóra á fyrstu sex mánuðum áranna 2014 …
Samanburður á launum bæjarstjóra á fyrstu sex mánuðum áranna 2014 og 2015 samkvæmt svari bæjarstjóra. Mynd/Hafnarfjarðabær
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert