„Það sem við óttuðumst mest“

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er það sem við óttuðumst mest að gerðist og eru mikil vonbrigði. En þetta er orðinn hlutur og eithvað sem við verðum að vinna úr,“ segir Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) um ákvörðun Rússa að banna innflutning á íslenskum matvörum, þar á meðal sjávarafurðum. 

Sjá frétt mbl.is: Rússar banna innflutning frá Íslandi

„Þetta er mikið högg, ekki bara fyrir greinina heldur líka efnahagslífið. Þetta eru útflutningstekjur upp á 30-35 milljarða sem um ræðir. Þetta er líka flókin staða því það er ekki auðvelt að skipta um markað fyrir þessar afurðir. Stærstu markaðirnir hafa verið Rússland, Úkraína og Nígería. Það verður erfitt að finna staðgöngumarkaði fyrir afurðirnar. Við höfum reynt það markvisst síðastliðin ár í Asíu og Afríku. Meðal annars höfum við reynt að finna markaði í Kína og í um 20 Afríkuríkjum en þegar markaður með hundruða milljóna manna hverfa á skömmum tíma þá tekur tíma að vinna úr því,“ segir Kolbeinn og bætir við:

„Þetta eru ekki bara útflutningstekjur heldur einnig störf. Það eru hundruðir ef ekki þúsundir starfa í hættu. Við verðum að vinna að því að takmarka tjónið.“

Kolbeinn segir að samtökin muni ræða við stjórnvöld í framhaldinu eftir að fréttirnar bárust þeim nú í dag. „Við vorum bara að fá þessar fréttir og svo virðist sem þetta taki þegar gildi og gildi um alla afurðir,“ segir Kolbeinn að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert