Íslendingar varla eiginlegir þátttakendur

Bjarni var umsetinn blaðamönnum eftir ríkisstjórnarfundinn.
Bjarni var umsetinn blaðamönnum eftir ríkisstjórnarfundinn. mbl.is/Eva Björk

Að lenda á bannlista Rússa er mun alvarlegra mál fyrir Íslendinga en einstök aðildarríki Evrópusambandsins, jafnvel þótt þátttaka Íslendinga í aðgerðum gegn Rússum sé að stærstum hluta táknræn. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Bjarni var m.a. spurður um það hvort stjórnvöld gætu með einhverju móti komið til móts við útvegsfyrirtækin.

„Ég held að það sé langmikilvægast að við gerum okkur grein fyrir umfanginu á þessum tímapunkti og sjáum hvernig úr þessu spilast í framhaldinu, m.a. með möguleikann á að finna nýja markaði og koma þessum afurðum í verð. Það er kannski svona fyrsta skrefið,“ sagði Bjarni.

„Það hins vegar blasir tvennt við: Í fyrsta lagi það að lenda á bannlista Rússa vegna innflutngs á matvælum til Rússlands er miklu alvarlegra mál fyrir Íslendinga en einstök aðildarríki Evrópusambandsins eða Evrópusambandið í heild. Og þar munar mjög miklu. Í öðru lagi; ef stjórnvöld á Íslandi myndu fara að reyna að lina erfiðleika þeirra sem hér eiga í hlut, þá væru það miklu þyngri byrðar, í fyrsta lagi útaf þessu sem ég nefndi, og í öðru lagi þá erum við bara einir til að axla þær byrðar. Það er í sjálfu sér létt verk fyrir Evrópusambandið að deila úr þeim sjóðum sem þeir hafa til ráðstöfunar, og ef við lítum svo til annarra þeirra sem eru á listanum, t.d. Bandaríkjamann, þá skiptir það þá í sjálfu sér engu máli að vera á bannlista Rússa, þannig að þeir þurfa svo sem ekki miklar áhyggjur að hafa af því.“

Spurður að því hvort honum fyndist koma til greina að forsetinn nýtti sambönd sín við ráðamenn í Rússlandi til að greiða fyrir málum sagðist fjármálaráðherra ekki vilja útiloka neitt í þeim efnum.

„Forsætisráðherra mun eiga samskipti, utanríkisráðherra mun eiga samskipti; við munum eftir öllum leiðum reyna að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og þau eru kannski á þessum tímapunkti fyrst og fremst þessi: Viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins hafa afskaplega takmarkað raunhæft gildi gagnvart Íslandi. Eðli viðskiptaþvingananna er í raun og veru með þeim hætti að það er óraunhæft að tala um að Ísland sé eiginlegur þátttakandi. Segjum t.d. í því að banna sölu hergagna til Rússlands. Við erum ekki í því að miðla eða framleiða hergögn. En hins vegar, á hinn bóginn, erum við að verða hlutfallslega verst úr þeim aðgerðum sem Rússar beita til að bregðast við viðskiptaþvingunum og þetta er sjónarmið sem ég held að sé mikilvægt að heyrist.“

Full ástæða til að staldra við og skoða aðferðafræðina

Bjarni sagði fulla ástæðu til að staldra við og skoða það í stóra samhenginu með hvaða hætti aðgerðir á borð við viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum væru teknar upp og innleiddar. Hann sagði hins vegar mikla samstöðu á þingi um þær aðgerðir sem nú stæðu yfir gegn Rússum og að enginn þyrfti að efast um stefnu Íslands hvað þær varðaði.

Um framhaldið sagði hann að komið yrði á fót samráðshópi, en fyrirliggjandi verkefni væru m.a. að fá ítarlegar upplýsingar um eðili innflutningsbanns Rússa og að eiga samskipti við hagsmunaaðila. Hann sagði aðalatriði að ekki væri eingöngu um að ræða áfall fyrir einstök sjávarútvegsfyrirtæki.

„Við erum hér að tala um 5% af útflutningsverðmætum okkar í vörum, og það er ákveðið áfall fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Við skulum hins vegar vona að það spilist þannig úr þessu að þessar afurðir allar fari ekki forgörðum, heldur að þær annað hvort seljist á aðra markaði á sama verði eða eftir atvikum á lægra verði. Og þannig verði tjónið ekki öll þessi 5%. En það er alveg ljóst að við erum að ræða hérna um hagsmuni sem snerta þjóðarbúið í heildina.“

En kæmi til greina að semja við Evrópusambandið um t.d. tollalækkanir fyrir þessar afurðir sem ekki fara inn á Rússlandsmarkað?

„Ja, eigum við ekki að segja að það skjóti a.m.k. skökku við að við stillum okkur upp með bandamönnum okkar í þessu máli, sem á endanum hefur þær afleiðingar að við fáum ekki markaði í Rússlandi eins og t.d. fyrir makrílinn. Og á sama tíma erum við með 18% toll inn í Evrópusambandið fyrir makríl, og stöndum reyndar í stríði við þá um rétt okkar til að stunda þær veiðar sem við teljum eðlilegar. Eitthvað verður undan að láta þegar svona staða kemur upp.“

Bjarni lagði áherslu á mikilvægi þess að reyna að finna …
Bjarni lagði áherslu á mikilvægi þess að reyna að finna nýja markaði fyrir aflann. mbl.is/Albert Kemp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert