„Það er allt í lagi að skipta um skoðun“

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut mbl.is/Ómar Óskarsson

Engin ný fæðingadeild er fyrirhuguð í nýju sjúkrahúsi Landspítalans sem á að rísa við Hringbraut á næstu árum. Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðingalæknir á Landspítalanum vakti athygli á þessu í grein sem birtist í Fréttablaðinu á fimmtudaginn og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa.

Í samtali við mbl.is segir Ebba að fjölmargir hafi haft samband við sig á netmiðlum í kjölfar greinarinnar og að „allt logi“ í lokuðum læknahópum á Facebook. Í greininni gagnrýnir Ebba jafnframt ákvörðun um fyrirhugaða staðsetningu nýja Landspítalans við Hringbraut og þá þöggun sem virðist ríkja um hana.

Hentar ekki fæðingaþjónustu nútímans

Fæðingadeild Landspítalans er til húsa í sextíu ára gömlu húsi við Hringbraut. „Þessar byggingar eru orðnar barns síns tíma og það þarf að halda þeim mikið við. Við starfsmennirnir stofnuðu Styrktarfélagið Líf og erum alltaf að safna og laga en húsið hentar ekki fæðingaþjónustu nútímans,“ segir Ebba.

Hún segir jafnframt að samstarfsmenn hennar á fæðingadeild séu ekki sáttir við það að ekki sé gert ráð fyrir fæðingadeild á nýja sjúkrahúsinu. Þar verður hins vegar kvennadeild þar sem aðgerðir vegna sjúkdóma í móðurlífi verða framkvæmdar.

Má ekki rugga bátnum

Að sögn Ebbu eru það þó ekki aðeins starfsmenn kvennadeildar sem eru óánægðir með fyrirhugað sjúkrahús. „Það eru mjög margir sem eru ekkert ánægðir með þetta staðarval. En þar sem það er búið að taka þessa ákvörðun um að hafa nýja sjúkrahúsið á Hringbraut er eins og það megi ekki rugga þeim bát. Það er nokkurskonar þöggun í gangi. Ef þú ert að skipuleggja stækkun á þínu eigin húsi og það líða 10-15 ár eru fjölskylduaðstæður breyttar. Þú stækkar ekki bara eins og hlutirnir voru einu sinni heldur hugsar fram í tímann, ekki alltaf aftur á bak. Það er það sem ég er að benda á.“

Ebba segist hafa skrifað greinina í Fréttablaðið til þess að vekja athygli á þeim göllum sem eru að hennar mati á áætlunum um nýjan spítala. „Ég get ekki verið starfsmaður á plani og segja ekki frá því að það er ekki gert ráð fyrir fæðingadeild á nýja sjúkrahúsinu. Þjóðin vissi þetta ekki, það er augljóst,“ segir hún og vísar í viðbrögðin við greininni.

Þöggun um staðsetningu spítalans

Ebba telur að ákveðin þöggun ríki um nýja spítalann þegar það kemur að staðsetningu. Búið er að ákveða að hann verði við Hringbraut og að mati Ebbu er eins og yfirmenn, millistjórnendur og Alþingismenn vilji ekki hrófla við þeirri ákvörðun.

„Ég held að meinið sé það að  þetta er of knappur landkostur og að þarna verði byggður bútaspítali. Þetta verður alltaf svolítið klúðurslegt. Síðan þarf líka að skoða það að ætla að byggja þetta ferlíki þarna þegar það kemur að skipulagsmálum miðbæjarins. Það þarf að horfa lengra og horfa vítt skipulega séð.“

Ebba nefnir sem dæmi sjúkrahúsið í Edinborg í Skotlandi en þar stundaði hún framhaldsnám. „Þar sem ég lærði í Edinborg var sjúkrahúsið í miðbænum. Svo átti að stækka það og þeim datt ekki í hug að hafa það í miðbænum. Þeir fóru bara rétt fyrir utan borgarmörkin og þar er flottur spítali.“ Ebba bendir einnig á að ef nýr Landspítali er byggður á einhverjum öðrum stað yrði vinnufriður á gamla sjúkrahúsinu á meðan. „Hvernig heldurðu að það verði að vinna þarna næstu árin á meðan á framkvæmdum stendur?“

Ebba hefur áhyggjur af þeirri þöggun sem virðist ríkja um nýja Landspítalann. „Þess vegna heitir greinin „Það sem má ekki segja“. Ég fór til dæmis á fund  velferðarnefndar Alþingis sem varaformaður Læknaráðs fyrir tæpu ári síðan. Þar sagði ég sumt sem ég segi í greininni og það féll ekki vel í kramið. Það er eins og það megi ekki efast um þessar áætlanir. En það er mín skylda sem læknir á gólfinu og talsmaður kvenna í landinu að segja frá þessu. Þegar börnin mín fara að eiga börn ætla þau að mæta í 100 ára gamalt hús?“

Það þarf að horfa fram á veginn

Hún bendir jafnframt á að ekki er gert ráð fyrir rými fyrir nýjan jáeindaskanna sem Íslensk erfðagreining ætlar að gefa Landspítalanum. „Þegar nýi Landspítalinn var hannaður var sú læknisfræði ekki til,“ bendir Ebba á.

„Það þarf að hugsa hvernig við viljum sjá heilbrigðismálin og þessa helstu heilbrigðisstofnun landsmanna þróast næstu árin. Við þurfum að horfa fram á veginn. Við megum ekki alltaf láta þessa pólitík ráða ferð. Við verðum að vera framsýn, með kjark og þor og greind. Það er allt í lagi að skipta um skoðun.“

Ebba segist hafa tekið eftir því að yfirmenn og millistjórnendur á sjúkrahúsinu hafi lítið tjáð sig um staðsetningu nýja sjúkrahússins. „Ég held að þeir séu kannski með bundið fyrir munninn vegna sinnar stöðu og þora þess vegna ekki að tjá sig. Það er eins og þar sem að þessi ákvörðun hefur verið tekin má ekki breyta henni.“

Eins og fyrr kom fram hefur Ebba fengið gífurlega sterk viðbrögð við greininni og er ljóst að fleiri en hún eru óánægðir með áætlaða staðsetningu nýja sjúkrahússins. „Við á kvennadeildinni höfum rætt þetta á okkar fundum og hvernig á að bregðast við. En ég hef fundið fyrir því millistjórnendur þora lítið að gera. Þess vegna ákvað ég bara að taka bara boltann og segja það sem ekki mátti segja og ég stend og fell með mínum orðum.“

Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðingalæknir.
Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðingalæknir. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert