„Þetta er algjör katastrófa“ fyrir uppsjávariðnaðinn

Nokkur grænlensk skip hafa landað í Hafnarfirði í vikunni, meðal …
Nokkur grænlensk skip hafa landað í Hafnarfirði í vikunni, meðal annars makríl. mbl.is/Þórður

Reikna má með að verðmæti loðnuafurða á vertíðinni í vetur geti dregist saman vegna viðskiptabanns Rússa á sjávarafurðir frá Íslandi. Verði viðskiptabannið ekki framlengt fram yfir 31. janúar 2016 gæti loðnuvertíðin þó bjargast að hluta því hún stendur frá janúar og fram í mars. Teitur Gylfason, sölustjóri hjá Iceland Seafood, segir líklegt að meira af aflanum fari í bræðslu og minna í vinnslu til manneldis, sem skapar verðmætari afurðir.

„Loðnuhrognin hafa farið í miklum mæli inn á Rússland og þeir hafa staðið undir verðhækkunum sem hafa orðið á þeim undanfarin ár. Nú verður minna framleitt af hrognunum og því hætta á að verð á þeim muni lækka,“ bætir Teitur við. Á árunum 2012-2013 voru 13.000 tonn loðnuhrogna send út frá Íslandi og þar af tók Rússlandsmarkaður í heild um 5.000 tonn. „Þannig að loðnuhrogn, sem hafa verið að andvirði 5-6 milljarðar, munu óhjákvæmilega lækka með töpuðum markaði,“ segir Teitur.

Telur hann einnig ljóst að missir yrði á sölu loðnu, allt að 20.000 tonnum, að verðmæti um tveir milljarðar.

Leitar ekki annað en í bræðslu

Hermann Stefánsson, framkvæmdastjóri hjá Iceland Pelagic, telur ekki að aðrir markaðir loðnunnar, þ.e. Asía eða Úkraína, muni taka við því magni loðnu sem stendur eftir vegna viðskiptabannsins. „Úkraína hefur ekki verið með síðan í fyrra vegna erfiðleikanna þar og fyrst Rússland dettur út þá getur þessi fiskur ekki leitað annað en í bræðslu. Til Asíu selst svo einnig annar hluti vörunnar en til Rússlands, þeir kaupa hrygnuna en Rússar hænginn.“

Mjög alvarlegt ástand

„Þetta er miklu meira en mjög alvarlegt, þetta er algjör katastrófa fyrir íslenskan uppsjávariðnað og þar af leiðandi íslensku þjóðina,“ segir Hermann og bætir við að þegar og ef þessum þvingunum yrði aflétt þá sé ekki sjálfgefið að gengið verði að þessum markaði vísum á ný. „Neyslan gæti hafa dregist saman eða aðrir birgjar búnir að taka okkar stöðu á markaðnum.“

Skriffinnskan tefur söluna

„Þetta er nýr markaður og það tekur töluverðan tíma að vinna sig inn á nýja markaði,“ segir Jóhannes Már Jóhannesson, sölustjóri hjá About fish, en þeir hafa í rúm tvö ár selt makríl til Kína. „Eftir að við gerðum fríverslunarsamning við Kína þá átti skrifræðið að einfaldast en það hefur einhverra hluta vegna ekki náð að skila sér í gegnum stjórnkerfið í Kína og okkar kaupendur hafa lent í vandræðum með að afgreiða vöruna inn í landið,“ segir hann og því sé ekki verið að flytja út eins mikið og þeir helst vildu.

Markaðurinn með makríl í Kína mun því ekki taka við sér á örskotsstundu, segir Jóhannes.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert