Albesta náttúrulaug landsins

Rúmlega 30 manns frá Jöklarannsóknafélagi Íslands skelltu sér í notalegt …
Rúmlega 30 manns frá Jöklarannsóknafélagi Íslands skelltu sér í notalegt bað við jaðar hins nýja Holuhrauns. mbl.is/Birkir Fanndal

„Fyrst gufaði þetta vatn upp en í vor og sumar hefur vatn verið að renna undan hrauninu og þaðan tekur það með sér hita. Hitinn á vatninu er mjög góður, 35-40 gráður og hægt að vera í 40-50 sentímetra djúpu vatni með þægilegum straumi og baða sig. Þetta er einhver albesta náttúrulaug sem ég hef prófað og hef ég komið í þær nokkrar,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, sem skellti sér í bað við Holuhraun, ásamt hópi á vegum Jöklarannsóknafélags Íslands í vikunni.

Við jaðarinn á nýja hrauninu renna töluvert miklir lækir og jafnvel má segja að ár renni undan hrauninu. Er vatnið baðheitt og mjög heilnæmt, að sögn þeirra sem hafa prófað. Þangað hefur verið töluverður straumur fólks sem vill reyna eitthvað nýtt í íslenskri baðmenningu.

Óvíst um framhaldið

Óvíst er hversu lengi varmi hraunsins viðheldur þessum sælureit á miðju hálendinu.

„Þetta verður ekki svona heitt lengi, það má búast við að strax næsta sumar verði þetta orðið töluvert kaldara og þá hentar þessi lind ekki lengur til að baða sig,“ segir Magnús Tumi.

Rúmlega 30 manns voru í ferðinni sem var skipulögð sem skemmtiferð.

„Þetta var ferð sem Jöklarannsóknafélagið fór í til að skoða Holuhraun. Jöklarannsóknafélagið lætur sig nú aðallega varða jökla en við sinnum ýmsu sem finna má í náttúrunni.

Í félaginu eru áhugamenn og vísindamenn sem vinna saman við rannsóknir á jöklum. Við ákváðum að hafa skemmtiferð í sumar og skoða þetta meðan tækifæri gafst og fórum bæði þangað og í Öskju. Það voru tæplega 30 manns víðsvegar að af landinu með í ferðinni, allir í sínu fríi,“ sagði Magnús Tumi.

Jökulsá þarf nýjan farveg

Hann segir að stóra spurningin sé hvað Jökulsá á Fjöllum gerir en kalt hefur verið í veðri og áin því mjög vatnslítil.

„Það er spurning hvað Jökulsá gerir, hún er búin að vera mjög vatnslítil í sumar og þarf væntanlega að finna sér nýjan farveg meðfram hrauninu. Þá rennur hún undir það, kælir hraunið hratt en það hefur verið sáralítið um jöklaleysingar í sumar og Jökulsá því verið mjög vatnslítil.“

Kortlagt og massamælt

„Það er heilmikið að gerast við Holuhraun þó að ég sé ekki í því einmitt núna,“ segir Magnús Tumi. Hann sinnir nú rannsóknum á Bárðarbungu en ætlar að mæla massa hraunsins sem rann í gosinu í fyrra. „Það er beðið færis til að kortleggja hraunið mjög nákvæmlega með flugvél sem kemur frá Bretlandi og það eru hinar og þessar rannsóknir í gangi.

Nú eru ég og mínir helstu samstarfsaðilar að vinna að rannsóknum á Bárðarbungu og öskjusiginu þar. Það var merkilegur og sjaldséður atburður þannig að við erum með merkileg gögn í höndunum sem er verið að vinna úr. Svo förum við í Holuhraun að gera mælingar í september til að mæla massann á hrauninu með þyngdarmælingum,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert