Hefur ekki veruleg áhrif á Rússa

Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands.
Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. AFP

Alexander Tkachyov, landbúnaðarráðherra Rússlands, segir að ákvörðun rússneskra stjórnvalda um að bæta Íslandi, Albaníu, Svartfjallalandi og Liechteinstein á lista yfir þær þjóðir sem falla undir viðskiptabann þeirra muni ekki hafa veruleg áhrif á rússneskan matvælamarkað.

Hann sagði í samtali við fréttamiðilinn Rossiiskaya Gazeta að landbúnaðarráðuneytið hefði lagt mat á áhrif bannsins á markaðinn. 

Í ljós hefði komið að aðeins fimm prósent af matvælainnflutningi Rússa kæmi frá þessum fjórum ríkjum.

Hann sagði jafnframt að hlutdeild Íslands í fiskinnflutningi Rússa hefði ekki verið yfir 15% á þessu ári.

„Það er ekki hægt að segja að þetta sé lítið magn, en það er heldur ekki hægt að segja að það sé þýðingarmikið.

Hann benti jafnframt á að síldin og makríllinn sem Rússar veiddu í Kyrrahafinu og eins síldin úr Okhotsk-sjónum og Beringshafinu væru alveg jafn góðar vörur og fiskurinn úr Atlantshafinu.

Hvað varðaði laxinn úr Atlantshafinu, þá gætu Rússar orðið sér úti um hann í Síle.

Ljóst er að bannið felur í sér að íslenskum fyrirtækjum verður ekki lengur unnt að markaðssetja sjávarafurðir í Rússlandi auk þess sem bannið tekur til landbúnaðarvara að frátöldu lambakjöti, ærkjöti, hrossakjöti og niðursoðnu fiskmeti í dósum. 

Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins liggur fyrir að íslenskar vörur verði ekki tollafgreiddar og hætta sé á að vörum verði fargað á landamærunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert