Útgerðin sýni samfélagslega ábyrgð

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir það ekki hafa verið rætt að hætta stuðningi Íslands við viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gegn Rússum. „Það hefur enginn lagt slíkt fram. Ég hef ekki hugsað það þannig,“ sagði hann í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun.

Búast hefði mátt við því að Ísland myndi bætast við á lista Rússlands yfir þær þjóðir sem innflutningsbann á matvælum gildir gagnvart.

Hann vitnaði í grein eftir Pawel Bartoszek í Fréttablaðinu í gær og las lokaorðin upp orðrétt:

„Umhverfis Ísland er 200 mílna landhelgi. Okkar fáu varðskip geta vitanlega ekki varið þessa eign okkar að ráði, nema hugsanlega fyrir einstaka veiðiþjófi á furðufána. Við eigum allt okkar undir því að borin sé virðing fyrir alþjóðalögum og landhelgi ríkja sé virt. Í ýtrustu neyð þurfum við síðan að reiða okkur á það að aðrar þjóðir verði tilbúnar til að leggja líf eigin borgara í hættu til þess að við fáum áfram að eiga okkar fisk í friði. Við getum ekki ætlast til að þær geri það umhugsunarlaust ef við sjálf erum ekki til í að færa neinar fórnir.“

Gunnar Bragi sagði þetta kjarna málsins.

Hann gagnrýndi hvernig sumir útgerðarmenn hefðu talað um ákvörðun Íslands um að styðja viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. Ef menn tækju eiginhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni, þá væri rétt að velta því fyrir sér hvort þeir væru bestu mennirnir til að fara með auðlindina.

Útflytjendur væru fyrst og fremst að hugsa um næsta ársreikning. Hann bað þá um að sýna samfélagslega ábyrgð í þessu máli.

Gunnar Bragi vék einnig orðum sínum að Gunnþóri Ingvarssyni, forstjóra Síldarvinnslunnar, sem hefur gagnrýnt íslensk stjórnvöld harðlega og bent á að þau eigi að gæta hlutleysis í málinu og einbeita sér að því að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja.

Utanríkisráðherra sakaði hann um óheiðarlegan málflutning og hvatti Síldarvinnsluna til þess að taka sér engan arð á aðalfundi sínum í næstu viku til að takast á við þá alvarlegu stöðu sem er komin upp.

Viðræður munu hefjast í næstu viku við Evrópusambandið um tollaívilnanir af hálfu sambandsins í þeim vöruflokkum sem verða verst úti í kjölfar innflutningsbanns Rússa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert