Frá Akureyri til Reykjavíkur á 115 krónum

Ómar kom ásamt fríðu föruneyti á BSÍ.
Ómar kom ásamt fríðu föruneyti á BSÍ. mbl.is/Golli

Ómar Ragnarsson renndi í hlað samkvæmt áætlun við umferðarmiðstöð BSÍ klukkan 17:00 í dag eftir að hafa hjólað alla leið frá Akureyri á rafhjólinu Sörla. Heildarorkukostnaðurinn við ferðina var aðeins 115 krónur en sá féll til þegar Ómar fékk að „stinga í nokkrar innstungur á leiðinni“ eins og hann orðar það sjálfur.

Þegar blaðamaður talaði við Ómar í gær var hann hjá Ferstiklu í miklu hvassviðri. Þaðan fór hann á að Bjarteyrarsandi þar sem hann neyddist til að fórna dýrmætum klukkutíma í að hlaða hjólið. Við botn fjarðarins var aðeins minni vindur og tókst Ómari að komast þaðan og niður á Kjalarnes á tveimur og hálfri klukkustund. Var hann kominn inn fyrir mörk Reykjavíkur klukkan 00:30 í nótt. Fór Ómar því á frá Ráðhústorginu á Akureyri og inn fyrir mörk Reykjavíkur á einum sólarhring og 15 og hálfri klukkustund og var hann kominn heim til sín í Grafarvogi eftir eitt rafmagnsstopp í viðbót tveimur og hálfri klukkustund síðar.

„Þá var ég búin að gera það sem að þetta snerist um. Að taka einn 90 kílóa mann og allt draslið sem hann er vanur að hafa með sér og átti að duga fyrir ferðalaginu þannig að enginn þyrfti að skaffa honum neitt, samtals um 120 kíló, og skila honum frá Ráðhústorginu og heim til sín í Reykjavík og það tókst klukkan þrjú í nótt,“ segir Ómar. „Það sem kom mér mest á óvart í ferðalaginu var að það skildi vera hægt að gera þetta svona örugglega innan tveggja sólarhringa.“

Ónuminn akur

Eftir að hafa hvílst í dag hjólaði Ómar svo síðasta spölinn niður á BSÍ og hafði þá lagt að baki 430 kílómetra á hjólinu. Með ferðinni setti hann nokkur Íslandsmet, fór lengstu vegalengd sem rafhjól hefur farið á eingöngu eigin afli án þess að skipta út rafgeymum: 159 kílómetra, fór lengstu vegalengd rafhjóls á sólarhring: 209 kílómetra, og lengstu ferðina sem rafhjól hefur farið hér á landi yfir höfuð: 430 kílómetra. Mun þetta að auki í fyrsta sinn sem rafhjól fer eingöngu á eigin afli og án þess að skipta út rafgeymum milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Rúsínan í pylsuendanum er hinsvegar orkukostnaðurinn við ferðina sem var hlægilega lítill, 115 krónur.

„Þetta er minna en það sem þú greiðir í stöðumæli í Reykjavík. Þetta segir okkur að það er ónuminn akur fyrir okkur sem þjóð með þennan dásamlega orkugjafa að vera fremst í að nýta hann. Hér er verk að vinna á öllum samgönguflotanum.“

Ómar segir að hanna þurfi „rafbíl litla mannsins“ og koma upp skiptistöðvum þar sem ekki væri nema mínútuverk að skipta um rafgeyma og hlaða. „Ég tel að það sé tæknilega hægt og það eigi að fara að  drífa í þessu. Því lægra sem olíuverð er því meira selst af henni og því fyrr klárast hún,“ segir Ómar. „Það er ekki bara það að við viljum finna ódýrari ferðamáta heldur viljum við afstýra því að barnabörnin okkar þurfi að glíma við loftslagsvána.“

Fegnasti maður í heimi

Leiðangurinn til Akureyrar og tilbaka var langur og strangur og því er ekki að undra að Ómar hafi skriðið sáttur í rúmið þegar heim var komið.

„Ég var alveg við að gefast upp við Hraun í Öxnadal og Engimýri þá hélt ég að ég yrði sendur svoleiðis öfugur tilbaka, ég kæmist ekki einu sinni upp Bakkaselsbrekkuna. Ég var heila klukkustund að glíma við brekkuna en það hafðist,“ segir Ómar. „Ég er einhver fegnasti maður í heimi um þessar mundir.“

Eins og landsmenn allir vita fær fátt stoppað Ómar Ragnarsson, þrátt fyrir að aldurinn hækki um eitt númer upp í 75 í september, og hann hafnar alfarið hugmyndum blaðamanns um að hann taki því kannski rólega næstu daga.

 „Ég fer bara í næstu verkefni.“

Fréttir mbl.is

Rafhjólaferð Ómars endar við BSÍ 

Ómar á undan áætlun

Rafhjólar frá Akureyri til Reykjavíkur

Borgarstjóri og iðnaðarráðherra voru á meðal þeirra sem tóku á …
Borgarstjóri og iðnaðarráðherra voru á meðal þeirra sem tóku á móti Ómari. mbl.is/Golli
Ómar Ragnarsson lagði af stað frá Akureyri í fyrradag.
Ómar Ragnarsson lagði af stað frá Akureyri í fyrradag. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert