Hestamennirnir komnir fram

Mynd úr safni
Mynd úr safni mbl.is/Golli

Hestamennirnir þrír sem var leitað í nótt eru komnir fram en þeir höfðu beðið af sér þokuna í nótt við Friðmundarvötn á Auðkúluheiði, að sögn lögreglunnar á Blönduósi.

Ekkert amaði að fólkinu sem hafði orðið viðskila við hóp hestamanna á leiðinni af Arnarvatnsheiði norður í Áfanga. Fjórði hestamaðurinn skilaði sér í skálann í Áfanga í nótt.

Björgunarsveitir voru kallaðar út um miðnætti til að leita að hestamönnunum sem voru með 50 hross en svarta þoka var á þessum slóðum í gærkvöldi og nótt. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í morgun en beiðnin afturkölluð eftir að hestamennirnir komust í símasamband og gátu látið vita af sér.

Leita þriggja hestamanna

Bætt við klukkan 8:53

Slysavarnarfélagið Landsbjörg var að senda frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Fjórir hestamenn sem leitað hefur verið að á Kili í nótt eru nú allir komnir í leitirnar, heilir á húfi. Þoka og slæmt skyggni hefur verið á leitarsvæðinu í nótt. Einn mannanna skilaði sér í skála við Áfanga í morgun en áfram var þriggja leitað. Þegar birti náðu mennirnir að hringja og láta vita af staðsetningu sinni. Voru þeir þá staddir vestan við vestara Friðmundarvatn, sem er töluvert úr leið sé miðað við áætlanir þeirra. Eins og fyrr segir amaði ekkert að mönnunum og hið sama er að segja um hrossastóðið. Munu þeir líklegast fara með hestana í aðhald og hvíla sig áður en ferðinni verður haldið áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert