„Sósíalisti“ útþynnt hugtak í dag

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Mbl.is/ Sverrir Vilhelmsson

„Ég hef alla tíð verið sósíalisti en merkingin er orðin útþynnt í dag. Ég veit ekki hvað það þýðir lengur. Ég tel að verðmætasköpun eigi að vera í höndum einkaðila, ríkið á ekki að vera í miklum rekstri. Ríkið á þó að sjá um margt, meðal annars heilbrigðiskerfið, almenningssamgöngur og fleira,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, aðspurður út í stjórnmálaskoðanir sínar í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Spurður út í þá staðreynd að fjármagnstekjuskattur sé lægri en tekjuskattur sagði Kári: „Ég á í erfiðleikum með að skilja hvers vegna skattur á eignir eigi að vera minni en skattur af vinnu, sérstaklega þar sem tekjur af eignum eru tekjur sem koma eingöngu til þeirra sem eiga eignir. Röksemdin um endurfjárfestingu hefur verið notuð og að ef fjármagnstekjuskattur er hækkaður verði það til þess að fólk myndi flytja úr landi. Það er nú þannig að flestir þeir sem eiga eitthvað hafa þegar flutt úr landi,“ sagði Kári og bætir við:

„Það er líka tími til að velta fyrir sér hvernig við tökum á þeim sem búa á Íslandi og stunda atvinnustarfsemi á Íslandi en greiða opinber gjöld sín annars staðar.“

Kári var sjálfur á lista yfir hæstu gjaldendur opinberra gjalda á síðasta ári. Spurður út í eigin tekjur sagði Kári: „Eins og þetta var sett saman í blöðunum sem birt eru er verið að blanda saman tekjum sem maður hefur af vinnu og við að selja eignir. Hjá mér var þetta blanda. Árslaunin mín eru ekki 30 milljónir á mánuði, ég skal lofa því. Þau eru býsna há og miða við laun í bandarísku samfélagi en mörgu sinni minni en þessi upphæð. Ég er bara launamaður sem fær launaumslagið sitt um mánaðarmót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert