Hlýjasti dagur sumarsins framundan

Allt bendir til þess að hlýjasti dagur sumarsins verði á morgun, 25. ágúst, segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, sem blæs á það sem sumir segja að sumarið sé búið hér á landi í kringum 20. ágúst.

Í dag verður hlýjast á Norðurlandi en á morgun er komið að Suðvestur- og Vesturlandi. 

Nú er ríkjandi austlæg átt og víða er rigning eða þokusúld á landinu en samkvæmt spá Veðurstofu Íslands léttir til austan til á landinu með morgninum. Það verður rigning vestast á landinu fram eftir degi. 

Einar segir að undanfarnar tvær vikur hafi verið mjög hlýtt í Skandínavíu og angi af þeim hlýindum berst nú með austanátt yfir hafið til Íslands. Hitaskilunum fylgir rigning en á bak við leynist mun hlýrra loft en hefur verið í sumar. Það verður hlýjast á Norðurlandi í dag og síðdegis má búast við því að hitinn fari loks yfir tuttugu gráður en það hefur ekki gerst síðan snemma í júlí, segir Einar í samtali við mbl.is. 

Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að hæsti hiti júlímánaðar hafi mælst 21 stig í Stafholtsey þann 5. Daginn áður mældist hæsti hiti á sjálfvirkri stöð, Fíflholtum á Mýrum, 20,8 stig. Lægsti hiti á landinu mældist -2,5 stig í Gæsafjöllum þann 29. Jafnaði sá hiti landsdægurlágmark. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 29. júlí, -1,5 stig.

22 stiga hiti í Húsafelli í lok júní

Þann 26. júní mældist 22 stiga hiti í Húsafelli en í júní mældist lægsti hiti á landinu -6,7 stig á Setri þann 13. júní.

Að sögn Einars eru það íbúar við Eyjafjörð eða í Kelduhverfi og Öxarfirði ( í kringum Ásbyrgi) sem mega eiga von á besta veðrinu í dag. 

Á morgun eru það íbúar á Suðvestur- og Vesturlandi sem helst geta glaðst yfir góðu veðri því Einar á von á því að morgundagurinn verði sá hlýjasti í sumar á þeim slóðum. Hann á von á því hitinn fari yfir tuttugu stig á einhverjum stöðum og að það verði 18-19 stiga hiti á höfuðborgarsvæðinu.

Með hlýja loftinu fylgir austan gola enda er það henni að þakka að þetta hlýja loft ratar til Íslands að þessu sinni. 

Skammgóður vermir

Einar segir að þetta sýni svart á hvítu að sumarið er hvergi nærri búið líkt og margir telja að gerist í kringum 20. ágúst. Að vísu séu hlýindin í dag og á morgun skammgóður vermir því á miðvikudag er von á vaxandi lægð og kólnandi veðri.

Júlímánuður var mjög kaldur um mestallt land. Á litlu svæði um landið suðvestanvert var hann þó lítillega hlýrri en meðaltal áranna 1961 til 1990 en meir en 2 stig undir því víða inn til landsins um landið norðaustan- og austanvert. Hiti var undir meðallagi júlímánaða síðustu tíu ára um land allt.

Spá yfir 20 stiga hita

Veður á mbl.is

Veðurstofa Íslands

Það er von á frábæru veðri í dag og á …
Það er von á frábæru veðri í dag og á morgun mbl.is/Eggert Jóhannesson
Það eiga eflaust margir eftir að nýta sér veðurblíðina
Það eiga eflaust margir eftir að nýta sér veðurblíðina mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ís og sól eiga vel saman
Ís og sól eiga vel saman mbl.is/Eggert Jóhannesson
Það gæti verið góð hugmynd að skreppa að Dettifossi í …
Það gæti verið góð hugmynd að skreppa að Dettifossi í dag mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert