„Vefur þeirra sem elska Ísland“

Norðurljósin yfir Kirkjufelli
Norðurljósin yfir Kirkjufelli Ljósmynd/Martin Schulz

Jón Heiðar Þorsteinsson, markaðssérfræðingur hjá Advania, hefur undanfarin þrjú ár haldið úti ferðabloggsíðunni Stuck in Iceland, sem hann stofnaði ásamt Sigurði Fjalari Jónssyni, vef og markaðsstjóra hjá Iðu fræðslusetri. Blaðamaður hitti Jón Heiðar í höfuðstöðvum Advania í Guðrúnartúni, þar sem hann er á útopnu að undirbúa Haustráðstefnu Advania, sem verður í Hörpu 4. september.

„Þetta byrjar allt í þessu húsi hér, síðsumars 2012. Þá erum við að horfa á skemmtiferðaskip sigla inn, væntanlega smekkfullt af fólki. Þá er þessi túrismi að fara af stað og Ísland mjög mikið í tísku,“ segir Jón Heiðar. „Síðan áttum við kaffispjall um hvernig Ísland er kynnt út á við. Það hefur líklega breyst svolítið, en það er oft sett fram glansmynd af landinu. Það er til dæmis alltaf sól á öllum gamaldags kynningarbæklingum. Við Sigurður höfum hins vegar báðir ferðast dálítið um landið og vitum að það er ekki alltaf þannig,“ segir Jón Heiðar sem heldur vefnum úti enn þann dag í dag, en Sigurður hefur dregið sig í hlé sökum anna.

Hann segir að þeim hafi fundist íslenskt kynningarefni alltaf fjalla um sömu staðina. Jón Heiðar segir Gullna hringinn og Bláa lónið auðvitað standa fyrir sínu, en það sé bara svo miklu meira í boði. Þeir ákváðu þá að koma á fót Stuck in Iceland, þar sem þeir skrifuðu í upphafi um eigin upplifanir.

„Þessir helstu staðir eru auðvitað fínir, en það er svo margt annað skemmtilegt í boði. Við vorum heldur ekkert vissir um að ferðamenn hefðu áhuga á bara þessu. Það eru svo margir magnaðir staðir á Íslandi og landið hefur ákveðna sérstöðu í Evrópu fyrir margar sakir,“ segir Jón Heiðar, sem hefur ferðast víða um hálendi Íslands.

Enginn rútutúrismi

„Það eru svo margar tegundir til af ferðamönnum. Ég held að þeir sem fara á Stuck in Iceland er fólk sem skipuleggur sínar ferðir sjálft. Það er enginn rútutúrismi, það er fólk sem kannski leigir sér bíl og vill sjálft sjá landið allt, en vill ekki láta keyra sig í rútu einhvern fyrirframgefinn hring,“ segir Jón Heiðar.

Hann segir nafnið á vefnum hafa sprottið úr eftirhrunsumhverfinu. „Það var grín í gjaldeyrishöftum. Menn voru í raun og veru fastir hérna,“ segir hann, en vefnum var hleypt af stokkunum í september 2012. „Þú gast ekki bara selt húsnæðið þitt, farið til útlanda og tekið peningana með. Við vorum því að grínast með að þó svo að við værum fastir hérna á Íslandi þá vildum við gera okkar besta úr því með því að ferðast.“

Þeir hafi því byrjað á því að ferðast sjálfir um landið og skrifa um eigin upplifanir. Mjög fljótlega hafi þeir hins vegar orðið varir við að síðan fannst nokkuð reglulega gegnum Google, Twitter og Facebook. „Þá fáum við endurgjöf frá fólki. Upp úr þeim samræðum spyrjum við fólk sem féll fyrir landinu hvort það vilji skrifa um upplifunina.“

Á því er ekki vöntun, því fjöldamargar umfjallanir um ágæti íslenskrar náttúru og þjóðar hafa birst á Stuck in Iceland og birtast reglulega nýjar færslur með örlátum náttúrulýsingum og mögnuðum myndum eins og þeim sem skreyta þetta viðtal, en þær eru allar teknar af fólki sem hefur gefið þær Stuck in Iceland.

Skipuleggja Íslandsferðina út frá vefnum

„Ég reyni bara að hafa þetta mjög einfalt,“ segir Jón Heiðar. „Á vefnum áttu bara að finna skemmtilega hluti að gera á Íslandi eða flotta staði til að upplifa, sem er eitthvað sem fólk er að leita að.“ Hann segir verkefni eins og þetta góðan skóla í hvernig koma eigi hlutum á framfæri á netinu, sérstaklega á tímum samfélagsmiðla og sérsniðinna leitarvéla, en svo sé líka mjög gaman að heyra hvað fólki finnst um landið.

„250 til 300 manns finna vefinn daglega gegnum leitarvél Google, sem er mjög flott því þá er maður að svara spurningum. Google gengur út á að svara spurningum. Fólk er að leita að einhverju og það finnur svör hjá okkur.“ Jón Heiðar segir þá oft hafa fengið orðsendingar frá fólki sem segist hafa skipulagt Íslandsferð sína út frá vefnum.

Hann segir í sjálfu sér magnað að fólk úti í heimi gefi tíma sinn til að skrifa texta og senda honum myndir, sem birtist svo á ferðabloggsíðunni.

Vefur þeirra sem elska Ísland

Í þessu liggur kannski fegurðin í vefnum. Stuck in Iceland er hliðarbúgrein hjá Jóni Heiðari, sem setur tíma sinn í verkefnið því hann vill sýna heiminum hvað landið er falllegt. „Þetta er vefur þeirra sem elska Ísland. Fólk er svo gagntekið af landinu að það vill skrifa um upplifun sína og er hrifið af því að það sé einhver maður uppi á Íslandi sem vill birta þetta.“

Hann segir vefinn hafa undið upp á sig eins og snjóbolti á undanförnum árum. „Á þessum þremur árum hafa 163.000 manns sótt vefinn. Það er mikill heiður. Þetta er líka allt svo jákvætt, sem er svo skemmtilegt. Ísland fær alltaf einróma lof. Fólk ber líka lof á hluti sem manni finnast hversdagslegir, bara eitthvað að þvælast í Reykjavík, fólki finnst það bara æðislegt, eitthvað sem maður tekur ekki eftir sjálfur,“ segir Jón Heiðar.

Megum ekki skemma upplifunina

„Það sem er alveg greinilegt af minni upplifun er að fólk kemur hingað til að sjá íslenska náttúru. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Þess vegna þurfum við Íslendingar að passa okkur alveg svakalega.“ Hann segir að okkur Íslendingum beri skylda til að vernda þessi víðerni sem við erum með og passa að við skemmum ekki upplifunina.

„Við erum á ákveðnum krossgötum. Við þurfum að takmarka aðgang eða rukka inn á svæði. Ég skil ekki af hverju menn eru svona feimnir við slíkt. Ísland er svo verðmætt í huga þeirra sem hingað koma, og það skiljum við Íslendingar ekki nógu vel. Við erum ekki nógu dugleg við að sjá landið okkar sem verðmæti, sem er mjög leitt. Við bara sjáum ekki hvað það er dýrmætt fyrir fólk sem er vant borgarumhverfi að geta komið hingað, keyrt stutt og er þá komið í tiltölulega auðn. Vont veður gerir það jafnvel bara skemmtilegra,“ segir Jón Heiðar.

Hiking in Iceland when the weather is shit

Um veðrið á Íslandi segir hann að það sé jafnvel eitthvað sem fólk sækist í. „Ég hef til dæmist skrifað tvær færslur á Stuck in Iceland, Hiking in Iceland when the weather is shit, hluta eitt og tvö,“ segir Jón Heiðar, sem gæti útlagst sem „Á göngu um Ísland í skítaveðri“ á íslensku. „Það eru nokkuð vinsælar greinar. Það er allt í góðu þó að hér sé rigning, fólk kemur hingað til að fá rigningu og rok, sérstaklega þegar það hefur verið heitt í útlöndum. Þá vilja menn bara kæla sig aðeins niður,“ segir Jón Heiðar. Þá sé saga landsins fólki mjög hugleikin, og nefnir minjarnar sem fundust nýlega við Lækjargötu sem dæmi, sem og fornminjarnar við Aðalstræti.

„Esjan virðist líka vekja mikla athygli. Ég skrifaði grein um Esjuna og það er sú sem er sýnilegust á leitarvélum, fjall sem okkur finnst nauðaómerkilegt.“ Ganga upp Esjuna sé hins vegar þægileg flestum og mikið útsýni sé þegar komið er á toppinn. „Hún er alveg fjársjóður, eitthvað sem okkur finnst hversdagslegast í heimi. Ég ímynda mér að fullt af fólki gangi á Esjuna því það les þessa grein hjá okkur.“

Allt snýst þetta um magntölur

Meðan á spjalli okkar stendur verður ljóst að Jón Heiðar hefur sterkar skoðanir á því hvernig ferðamannalandið Ísland eigi að þróast. Það þurfi til dæmis að sjá landið dálítið með augum ferðamannsins og ganga vel um landið. „Tengdapabbi minn segir mér frá því þegar hann var ungur maður þá ólst hann upp við fréttir af því hversu mörg tonn af fiski komu á land. Allt snérist þetta um magn. Þegar hann varð eldri byrjaði hann að heyra í útvarpinu talað um vísitölur, magntölur, Nikkei og Dow Jones og þannig. Svo heyrist þetta ekki meira,“ segir Jón Heiðar.

„Núna er talað um fjölda ferðamanna. Við tölum um fjölda, en mjög lítið um arðsemi og hvað ferðamenn upplifa. Hingað til hefur okkur gengið vel með þetta, en ef við ætlum að gera þetta til framtíðar - sem ég held að við eigum að gera, þetta er frábær viðbót við atvinnulífið - þá þurfum við að hugsa um arðsemi og gæði,“ bætir hann við.

„Það er fáránlegt að við takmörkum ekki aðgang að viðkvæmustu svæðunum eða rukkum inn. Þetta er gert allsstaðar annarsstaðar og þykir ekkert mál. Við verðum bara að horfa á þetta sem verðmæti sem við þurfum að passa upp á og helst auka til framtíðar. Ég er ekki með töfralausnir um hvernig það er gert en það þarf að finna leið og þessi atvinnuvegur á að bera sig eins og hvað annað,“ segir Jón Heiðar.

Jón Heiðar Þorsteinsson.
Jón Heiðar Þorsteinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ljósmynd/Martin Schulz
Jökulsárlón. Glampinn í bakgrunni er frá eldgosinu í Holuhrauni.
Jökulsárlón. Glampinn í bakgrunni er frá eldgosinu í Holuhrauni. Ljósmynd/Martin Schulz
Ljósmynd/Stan Klasz
Ljósmynd/Michel Hammann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert