Hitamet slegið í borginni

Börn léku sér í sólinni í Nauthólsvík í hádeginu.
Börn léku sér í sólinni í Nauthólsvík í hádeginu. mbl.is/Eggert

Hiti er kominn yfir tuttugu gráður í Reykjavík, og er dagurinn því sá hlýjasti í sumar. Nýjustu mælingar sýndu 20,3 stig samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands, og hefur metið í borginni í sumar því verið slegið. 

Glampandi sól og blíða er í Nauthólsvík þessa stundina og hefur fjöldi fólks lagt leið sína þangað í dag. Gestir ylstrandarinnar segja góða stemningu vera á svæðinu. „Það er fámennt en góðmennt núna en það er að aukast af fólki,“ segir Steingerður Sonja Þórisdóttir, sem er á svæðinu. „Það er smá vindur en hann er hlýr svo þetta er bara eins og á alvöru sólarströnd.“

Áfram hlýtt á morgun

„Sumarið er ekki alveg búið ennþá,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofunni. „Það verður hlýtt fram á kvöld og svo verður áfram hlýtt á morgun.

Hann segir nokkuð milt verða áfram sunnanlands, en á Norður- og Austurlandi muni hvöss og blaut norðanátt hins vegar ganga yfir. „Það fer að rigna fyrir austan á morgun sem færist svo norður. Þá kólnar heldur á þeim slóðum,“ segir hann. „En það léttir vonandi aftur til um helgina.“

Veður­spá­in fyr­ir næsta sól­ar­hring:

Austan- og norðaustanátt, yfirleitt 5-13 m/s. Skýjað með köflum og sums staðar skúrir í dag, en þokuloft A-lands og á annesjum fyrir norðan. Hiti 14 til 21 stig, en mun svalara í þokunni. Gengur í norðaustan 10-18 á morgun. Súld eða rigning, einkum NA- og A-lands. Hægari vindur og bjart veður SV-til fram eftir degi, en hvessir þar og fer að rigna um kvöldið. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast SV-lands.

Á fimmtudag:
Norðaustan 3-10 m/s, en 10-18 NV-til á landinu. Rigning eða súld fyrir norðan og austan, en stöku skúrir á S- og SV-landi. Hiti frá 7 stigum við NV-ströndina, upp í 17 stig SV-lands.

Á föstudag:
Norðan 8-15 m/s, hvassast N- og V-lands. Rigning á Vestfjörðum og N-landi, skúrir A-lands en bjartviðri á S-landi. Hiti 4 til 12 stig, kaldast NV-til, en 12 til 17 stiga hiti S-lands að deginum.

Á laugardag og sunnudag:
Norðlæg átt og léttskýjað SV-lands. Skýjað og lítilsháttar væta á N- og A-verðu landinu, en úrkomulítið á sunnudag. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á S-landi.

Á mánudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt, úrkomulítið og milt veður.

Sólað sig fyrir sundferð í Nauthólsvík.
Sólað sig fyrir sundferð í Nauthólsvík. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert