Kanna hvort líkið sé af Frakka

Líkið fannst í Sauðdrápsgili í Laxárdal í Nesjum í síðustu …
Líkið fannst í Sauðdrápsgili í Laxárdal í Nesjum í síðustu viku. mbl.is

Lögreglan á Suðurlandi og kennslanefnd ríkislögreglustjóra kanna meðal annars hvort líkið sem fannst í Sauðdrápsgili í Laxárdal í Nesjum í síðustu viku sé af tvítugum Frakka sem kom hingað til lands í október á síðasta ári og skilaði sér ekki aftur til Frakklands. Flaug hann til Hafnar í Hornafirði og hefur ekki spurst til hans eftir það.

Samkvæmt heimildum mbl.is fór aldrei fram formleg leit að manninum en þó var svipast um eftir honum eftir að lögregluyfirvöld í Frakklandi höfðu samband við lögreglu á Íslandi vegna málsins. Leiðin frá Höfn í Hornafirði að Sauðdrápsgili er hátt í fimmtán kílómetrar en svæðið má sjá á korti sem fylgir fréttinni.

Sendu tannlæknaskýrslur

Líkt og áður hefur komið fram gekk göngufólk fram á líkið miðvikudaginn 19. ágúst. Um er að ræða lík af ungum karlmanni, um það bil 186 sentímetrar á hæð, með axlasítt hár klætt í svarta strigaskó með hvítri stjörnu á hlið, dökkbláar íþróttabuxur og hettupeysu með áletruninni „QUICKSILVER“.  

Frétt mbl.is: Hafa ekki borið kennsl á líkið

Enn hafa ekki verið borin kennsl á líkið og bíður lögregla á Suðurlandi eftir niðurstöðum rannsóknar kennslanefndar. Nefndin hefur meðal annars sent upplýsingar til erlendra lögregluyfirvalda og er beðið eftir niðurstöðum þaðan. Meðal þeirra upplýsinga sem sendar hafa verið eru tannlæknaskýrslur nefndarinnar.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að kennslanefndin vinni með frönskum lögregluyfirvöldum vegna málsins sem og rannsóknarstofu í Svíþjóð sem framkvæmir m.a. DNA-greiningar fyrir sænsku kennslanefndina. Nokkurn tíma getur tekið að fá staðfest auðkenni þannig að unnt sé að bera kennsl á hinn látna

Benda á vini og ættingja vegna málsins

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að að fjöldi ábendinga hafi borist vegna málsins. Meðal annars er um að ræða ábendingar frá fólki sem telur hugsanlegt að um ákveðinn einstakling að ræða, ættingja eða vin sem ekki hefur spurst til í nokkurn tíma.

Sveinn Kristján tekur þó fram að yfirleitt hafi lögregla haft upp á umræddum einstaklingum eftir stutta leit. Hann staðfestir að ábendingin um Frakkann sé meðal þeirra sem borist hafa vegna málsins og hafi ekki verið útilokað að um unga manninn sé að ræða.

Þá er heldur ekki búið að útiloka að um Íslending sé að ræða. „Nei, það er svo sem ekki búið að útiloka það. Við vitum ekkert hver þetta er, ekki ennþá allavega, þannig að við getum ekki útilokað það. Þetta getur verið einhver sem á engan að og öllum er sama um ,“ segir Sveinn Kristján. Um ungan mann er að ræða en kennslanefndin hefur ekki geta áætlað aldur hans nákvæmlega.

Ekki náðist í fulltrúa kennslanefndar við vinnslu fréttarinnar.

Fréttir mbl.is um málið: 

Vinna með lögreglu erlendis vegna líkfundarins

„Fólk er með allskonar hugmyndir“

Líkfundur í Laxárdal í Nesjum

Lögreglan á Suðurlandi og kennslanefnd ríkislögreglustjóra kanna meðal annars hvort …
Lögreglan á Suðurlandi og kennslanefnd ríkislögreglustjóra kanna meðal annars hvort líkið sé af tvítugum Frakka. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert