Vandinn er verðtryggingin

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það getur ekki verið markmið að hafa hér háa vexti. Ráðast svo í aðgerðir til að hindra það að spákaupmenn sigli hingað með gull í von um mikinn skyndigróða líkt og Seðlabankinn kynnti í síðustu viku. Það þarf að ráðast að rótum vandans. Vandinn er m.a. verðtryggingin,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, á vefsíðu sinni í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands í síðustu viku.

„Efnahagsstjórnin virkar ekki sem skyldi þegar við búum við verðtryggingu skulda. Það er sama hvað stýrivextir eru hækkaðir mikið, þegar við deilum hækkuninni á allan lánstímann líkt og gert er í dag þá hefur hún til skamms tíma lítil sem engin áhrif. Þetta var m.a. ástæða þess að við náðum ekki að kæla hagkerfið þegar á þurfti að halda fyrir hrunið,“ segir þingmaðurinn ennfremur. Hann segir ljóst að endurskoða þurfi peningastefnu Íslands og að ótrúlegt sé að það skuli ekki hafa verið gert strax eftir fall viðskiptabankanna.

Ástæða þess segir Ásmundur væntanlega þá að fyrri ríkisstjórn hafi talið að evran myndi leysa allan vanda Íslands og fyrir vikið þyrfti ekkert að skoða peningastefnu landsins. Þannig mætti bæði lækka vexti og afnema fjármagnshöftin. Staðreyndin sé hins vegar sú að vextir séu breytilegir innan Evrópusambandsins. Þegar núverandi ríkisstjórn hafi síðan kynnt áætlun um afnám haftanna hafi þeir sem talað hafi fyrir inngöngu í sambandið til þess að afnema þau verið fljótir að flýja fyrri málflutning sinn.

Ásmundur segir að krónan sé ekki vandamálið frekar en að lausnin felist í evrunni. „Rót vandans varðandi háu vextina er heimatilbúinn og eðlilegast hefði verið að umræða yrði tekin eftir efnahagshrunið. Það þarf strax að hefjast lausnamiðuð umræða án upphrópanna um þessi mál. Það er grunnur þess að við þá náum að vinda ofan af þessu séríslenska vandamáli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert