Amsterdam í bláum ham

Tólfan stóð fyrir söng og gleði alla leið frá Keflavík …
Tólfan stóð fyrir söng og gleði alla leið frá Keflavík til Prag þegar Íslendingar mættu Tékkum í landsleik mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Þessi ferð hefur þegar farið fram úr villtustu og björtustu draumum og við erum ekki einu sinni farin af stað,“ segir Pétur Orri Gíslason, formaður Tólfunnar, stuðningsmannasveitar íslenska landsliðsins.

Íslensku strákarnir í knattspyrnulandsliðinu munu fá áður óþekktan stuðning þegar þeir ganga út á völl þann 3. september í Hollandi. Búist er við allt að fjögur þúsund Íslendingum, en fjölmargir Íslendingar búsettir í Evrópu hafa boðað komu sína. „Ég veit að það eru Íslendingar að kaupa miða í gegnum Hollendinga og það verða miklu fleiri en 2.800 Íslendingar á leiknum.“

Íslendingaveisla á Dam-torgi

Dagskráin á þessari stærstu Íslendingaveislu á erlendri grundu er ekki flókin. Sungið verður og trallað á Dam-torginu í borginni, þar sem áætlað er að Íslendingarnir muni hittast dagana fyrir leikinn.

„Við fórum að tala um það fyrir ári að gera eitthvað skemmtilegt í Hollandi. Við blésum til hópferðar og undirbúningur fór síðan á fullt fyrir fimm mánuðum. Aðdragandinn hefur verið langur og við reyndum að vanda til verka. Ef ég á að vera heiðarlegur erum við Tólfumenn að fara á límingunum af spenningi,“ segir Pétur.

Tólfan heldur áfram að stækka, en ekki er langt síðan félagsskapurinn taldi tvo tugi. „Þessi snjóbolti er ekki hættur að stækka, því fer fjarri. Fyrir 20 mánuðum sátum við 25 saman og stofnuðum Tólfuna fyrir alvöru. Nú eru 2.800 manns, hið minnsta, að fara með okkur og Gaman ferðum í partí ársins.

Stuðningurinn sem var í leikjunum gegn Tyrkjum, Hollendingum og Tékkum var frábær. Hann verður einnig magnaður í Amsterdam og strax og við lendum förum við á völlinn að styðja strákana gegn Kasakstan.“

Styðja, syngja og öskra

Það eru ekki aðeins strákar sem eru í Tólfunni þó að þeir séu í miklum meirihluta. Um 10-15 stelpur hafa mætt á alla heimaleiki landsliðsins og fer þeim fjölgandi með hverjum landsleiknum. Allir eru velkomnir í fjörið, svo framarlega sem íslensk landslið eru hvött áfram.

Í síðustu ferð Tólfunnar, gegn Tékklandi fyrir ári, fóru fjölmargar stelpur með í ferðina og gáfu strákunum ekkert eftir þegar kom að því að hvetja liðið áfram.

mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Stuðningsmannasveitin Tólfan hefur haft mikið að segja í að kynda …
Stuðningsmannasveitin Tólfan hefur haft mikið að segja í að kynda upp stemminguna á landsleikjum.
Áhorfendur á Laugardalsvelli
Áhorfendur á Laugardalsvelli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert