Blóð um alla íbúð

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms þar sem farið var fram á gæsluvarðhald yfir manni til 21. september sem, ásamt fleirum, réðist með óhugnanlegum hætti að stúlku og kærasta hennar.

Í gæsluvarðhaldskröfu lögreglu segir að 15. ágúst hafi lögregla verið kölluð til vegna líkamsárásar. Þegar lögreglu bar að voru gerendur á bak og burt, en móðir þolanda og kærasti hennar, sem einnig var ráðist á, voru heima.

Báðir þolendurnir voru með skurð í andliti og sögðust hafa verið lamin með hamri. Blóð var á gólfi gangsins í íbúðinni og í eldhúsinu, en mest hafi blóðið verið í herbergi þolenda árásarinnar. Öll sögðu þau að þrír einstaklingar hafi komið inn á heimilið og veitt þeim þessa áverka með hnífi. Þau voru í kjölfarið flutt á slysadeild.

Verið að skera hann í fótinn

Annar brotaþolanna sagðist við yfirheyrslur hafa vaknað við að einn árásarmannanna hafi verið að skera sig með hnífi í hægri fótinn. Síðan hafi árásarmaðurinn sem gæsluvarðhaldsúrskurðurinn tók til skorið sig í vinstri kinnina, sem og kærustu sína. Þess á milli sagði hann árásamanninn hafa slegið þau með hamri og hótað að taka stúlkuna með sér á brott, og hótaði fjölskyldum þeirra öllu illu. Þá hafi hann einnig kýlt þau í andlitið með krepptum hnefa og sparkað í þau.

Í kjölfarið á maðurinn sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald að hafa tekið fartölvu stúlkunnar og snjallsíma þeirra. Ástæða þess er að sögn árásarþola að hann hafi verið að leita að Lyrica flogaveikilyfjum sem hann sakaði þau um að hafa stolið. Stúlkan segir árásarmanninn þar að auki hafa hellt bjór yfir hana, grýtt henni í vegg og hrint niður stiga. Síðar hafi hann skipað henni að sleikja blóð af fingrum hennar og síðar stungið fingrunum upp í hana.

Blóðugar buxur í fatahrúgunni

Rétt eftir hádegi daginn eftir hafi tveir árásarmenn verið handteknir á heimili mannsins sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Við leit í íbúðinni hafi fundist fartölva stúlkunnar og gsm sími sem tekinn hafði verið daginn áður í árásinni. Þá hafi einnig fundist blóðugar buxur efst í hrúgu af óhreinu taui inni í fataskáp, blóðugur bolur á baðherbergisgólfi og aðrar buxur með blóðkámi inni í stofu. Við nánari leit kom í ljós Leatherman-hnífur með blóðkámi í vasa mannsins sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald sem og dúkahnífur með blóðkámi í stofunni. Í gluggakistu í svefnherberginu hafa þar að auki fundist klaufhamar.

Í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfestir, segir að sakborningur eigi sér nokkurn sakaferil að baki sem teygi sig áratug aftur í tímann. Í júní á þessu ári hafi hann verið dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi, þar sem hann veittist að manni með hnífi og skar hann á hægri framhandlegg og hægri kinn.

Lögregla sagði í kröfu sinni um gæsluvarðhald að sakborningur sé hættulegur umhverfi sínu og að það sé mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, auk þess sem það bryti gegn réttarvitund almennings ef sakborningur gengi laus.

Héraðsdómur Reykjavíkur taldi nægilega sýnt fram á að sakborningur ætti ekki að ganga laus, ekki bara vegna alvarleika þeirra áverka sem hann veitti árásarþolum í þessu tilviki, heldur einnig vegna þess að hann hefði ítrekað veist að fólki með hnífi. Maðurinn var sem fyrr segir úrskurðaður í gæsluvarðhald til 21. september.

Handrukkarar í gæsluvarðhald

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert