Fjárdráttarmáli frestað

mbl.is/Kristinn

Þingfestingu máls gegn fyrrverandi starfsmanni MP-banka sem sakaður er um 60 milljón króna fjárdrátt hefur verið frestað til 9. september. Þingfesta átti málið í Héraðsdómi Reykjaness í gær en því var frestað þar sem að ákærði mætti ekki í dómsal.

Málið kom upp í mars síðastliðnum við reglubundið innra eftirlit þegar grunur vaknaði um að starfsmaður í bakvinnslu bankans hefði misnotað aðstöðu sína og dregið að sér fé. Meint brot áttu sér stað á rúmlega tveggja ára tímabili og dró starfsmaðurinn fyrrverandi sér síðast fé um miðjan febrúar síðastliðinn.

Í tilkynningu frá MP-banka vegna málsins kom fram að starfsmaðurinn hafi lagt töluvert á sig til að fela slóð sína og koma í veg fyrir að brotin uppgötvuðust. Þannig séu 110 færslur tíundaðar í ákæru þar sem fé var fært úr bankanum. Í raun hafi hins vegar þurft að rekja umtalsvert fleiri færslur til að upplýsa brotið þar sem upphæðir voru færðar fram og til baka og brotnar upp og lagðar saman á ýmsan máta.

Fyrri frétt mbl.is: Sakaður um 60 milljóna fjárdrátt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert