Rúmlega þriðjungur makrílsins í íslenskri lögsögu

Makríll
Makríll

Alls eru tæp 2,9 milljón tonn af makríl innan  íslenskrar efnahagslögsögu eða rúm 37% af heildarvísitölunni, sem er metin um 7,7 milljón tonn. Minna er af markíl í ár  en á síðasta ári en þá hafði ekki fundist jafn mikið af makríl síðan rannsóknir hófust árið 2007. 

Niðurstöður sameiginlegs makrílsleiðangurs Færeyinga, Íslendinga, Norðmanna og Grænlendinga sem farinn var á tímabilinu 1. júlí til 10. ágúst liggja nú fyrir í heild sinni.

Í leiðangrinum tóku þátt fjögur skip, R/S Árni Friðriksson frá Íslandi, eitt skip frá Færeyjum og tvö frá Noregi. Fyrr í þessum mánuði var greint frá bráðabirgðaniðurstöðum á vef Hafrannsóknastofnunar.

Markmið leiðangursins var að kortleggja útbreiðslu og magn makríls og annarra uppsjávarfiskistofna í Norðaustur Atlantshafi meðan á ætisgöngum þeirra um Norðurhöf stendur ásamt því að kanna ástand sjávar og átustofna á svæðinu.

Öll skipin notuðu samskonar flotvörpu sem sérstaklega hefur verið þróuð fyrir þessar rannsóknir og var R/S Árni Friðriksson að taka þátt í þeim í áttunda sinn.

Magn og útbreiðsla makríls á svæðinu var metin út frá afla í stöðluðum togum sem tekin voru með reglulegu millibili og var rannsóknasvæðið um 2,7 milljón ferkílómetrar.

Heildarvísitala makríls (lífmassi) á svæðinu var metin um 7,7 milljón tonn, þar af voru tæp 2,9 milljón tonn innan íslenskrar efnahagslögsögu eða rúm 37% af heildarvísitölunni. Heildarvísitalan í ár er 1,3 milljón tonnum lægri en á síðasta ári en þá var hún sú hæsta síðan rannsóknirnar hófust árið 2007.

Aldrei áður jafn mikið af makríl í íslenskri lögsögu

Vísitala makríls innan íslenskrar lögsögu hefur hins vegar aldrei verið eins há og í ár, en síðustu þrjú ár var vísitalan þar um 1,6 milljón tonn. Á öðrum svæðum var magnið minna en á síðasta ári.

Mesta þéttleika makríls var að finna suður af Íslandi og náði útbreiðslan þar sunnar en áður hefur sést. Heildarstærð svæðisins sem kannað var í ár var lítið eitt stærra en á síðasta ári en eins og undan farin ár, var aðeins lítill hluti lögsögu Evrópusambandsins kannaður.

„Niðurstöður leiðangursins sýna enn og aftur víðáttumikla útbreiðslu makrílsins að sumarlagi. Það er þó ljóst að ekki náðist að dekka allt útbreiðslusvæði hans og þá sérstaklega suðaustur af yfirferðarsvæðinu í kringum Bretlandseyjar og í Norðursjó þar sem einkum yngri fiskur er talinn halda til á þessum árstíma. Útbreiðsla makríls var eins og áður sagði frábrugðin síðustu árum sem bendir til breytinga á farleiðum hans. Þær tengjast mögulega kaldari yfirborðssjó í vor suðaustur af Íslandi sem náði allt að ströndum Noregs,“ segir í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert