Samstarfssamningur Spretts og Samskipa

Fjöldi fólks var viðstaddur undirritunina.
Fjöldi fólks var viðstaddur undirritunina. Ljósmynd/Helena Ríkey Leifsdóttir

Hestamannafélagið Sprettur og Samskip hafa undirritað samstarfssamning sem felur í sér að Samskip verða aðalstuðningsaðili félagsins næstu sjö árin. Samningurinn felur meðal annars í sér að reiðhöll Spretts verður hér eftir nefnd Samskipahöllin og keppnisreiðvöllur félagsins utanhúss Samskipavöllurinn. Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu frá Spretti og Samskipum.

Samskip hafa um nokkurt skeið látið til sín taka í íslenskri hestamennsku og um árabil verið einn aðalstuðningsaðili Landsmóts hestamanna. Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa segir í tilkynningunni það því vera rökrétt skref að ganga til samstarfs við Sprett, sem er með afar kröftuga starfsemi og frábæra aðstöðu sem Samskip nú tengjast.

Þá fer áhugamannadeildin í hestaíþróttum, Gluggar og Glerdeildin, sem Hestamannafélagið Sprettur stofnaði á síðasta ári, aftur af stað í vetur. Í dag var undirritaður samningur milli Spretts og fyrirtækisins Gluggar og Gler, en fyrirtækið verður aðalstyrktaraðili deildarinnar. Þá mun RÚV sýna frá Gluggar og Glerdeildinni í vetur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Spretti og Gluggum og Gleri.

Áhugamannadeildin er röð fimm móta sem haldin verða í Samskipahöllinni að Kjóavöllum og verður á fimmtudagskvöldum kl. 19:00. Aðgangur er ókeypis fyrir áhorfendur.

Í Gluggar og Glerdeildinni er keppt í fjórgangi, trekk, fimmgangi, slaktaumi og tölti og taka 15 lið þátt í keppnisröðinni með fimm knöpum hver. Þá var í dag jafnframt dregið um fjögur ný lið sem taka þátt í deildinni í vetur og komu nöfn eftirtalinna liða upp úr skálinni: Lið Siggu, Lið Vesturlands, Lið Austurkots og Lið Valsteins.

Þrjú lið verða til vara og eru það Lið Andrésar Péturs, Lið Dalamanna og Lið Team Loftið. Fyrir voru eftirtalin lið: Barki, Heimahagi, Hringhótel, Kæling, Kerckhaert/Málning, Margrétarhof/Export hestar, Mustad, Poulsen, Team Kaldi Bar, Toyota Selfossi og Vagnar og Þjónusta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert