Stakk sig á sprautunál á skólalóð

Það er óhugnanlegt að sjá sprautur liggja á víðavangi þar …
Það er óhugnanlegt að sjá sprautur liggja á víðavangi þar sem börn geta tekið þær í misgripum fyrir leikfang. mbl.is/Ómar Óskarsson

Friðrik Bridde birti í dag færslu á Facebooksíðu sinni þar sem hann segir frá barnabarni sínu sem stakk sig á sprautunál sem lá á glámbekk á skólalóð í Safamýrinni.

„Drengurinn kemur heim með sprautu sem hann hafði fundið og hafði stungið sig á leiðinni og aftur þegar hann sýnir mömmu sinni,“ segir Friðrik í samtali við mbl.is. Hann segir barnabarninu heilsast vel en þurfi að undirgangast blóðrannsókn og margar fyrirbyggjandi sprautumeðferðir á næstunni. „Móðir hans hringir í mig og ég sæki hann og fer með á spítala. Hann fann þetta á gervigrasvelli við Framheimilið í Safamýrinni, milli Framheimilisins og skólans þannig að þetta er á mörkunum að vera á skólalóðinni,“ segir Friðrik.

Í gær fór ég með barnabarn mitt á spítala til að láta skoða sár sem kom eftir að það stakk sig í hendi með sprautunál.Þa...

Posted by Friðrik Bridde on Wednesday, August 26, 2015

Lágu óhreyfðar allan daginn

Hann segir krakka hafa verið þarna að leik og að barnabarn hans hafi ákveðið að taka sprautuna upp til að sýna mömmu sinni. „Það vakti forvitni hans að þetta lá þarna,“ segir hann. „Það sem ýtti við mér að birta þetta var að tveimur dögum áður hafði ég gengið fram á tvær sprautur á bílastæði nálægt heimili mínu í 101. Önnur var full af blóði,“ segir Friðrik.

Sprauturnar sá Friðrik um morguninn þegar hann fór að heiman, og lágu þær enn óhreyfðar þegar hann kom heim um fimmleytið. „Þá var fjöldi manns búinn að sjá þetta yfir daginn og ganga framhjá þessu án þess að snerta þetta. Það er beygur í fólki að hreyfa við þessu en börn eru huguð og taka þetta í hugsunarleysi upp. Við þurfum einhvern veginn að tala til þessara sjúklinga sem sprauta sig, þetta er auðvitað veikt fólk, þá þarf að hjálpa því og best væri ef það gæti fengið peninga fyrir að skila nálum í safnbanka,“ segir Friðrik.

„Ég vil hvetja fíkla til að skila sprautunálum, bæði eftir sig og aðra. Peningar eru oft hvetjandi, einhverskonar gulrót.  Það er svo sorglegt, maður finnur þetta liggjandi í Hljómskálagarðinum eða á umferðareyjum. Þarna hefur einhver bara sprautað sig á staðnum og haldið áfram sinni för. Fólk er ekkert að fela þetta lengur.“

Vissu ekki hvort mætti henda þeim

Að endingu hafi hann tekið upp sprauturnar sem voru á bílastæðinu við heimili hans með skóflu og kústi. „Morguninn eftir þegar sorphirðarnir komu að tæma tunnurnar þá hljóp ég út til að vara þá við að það væru tvær sprautunálar þar ofan í. Þegar ég spurði þá hvort ég hafi gert rétt með því að henda þessu svona þá svöruðu þeir því til að þeir vissu ekki hvort þeir mættu tæma tunnuna. Þeir voru smeykir að einhver gæti stungið sig á þessu í þeirra sorpstöð. Við almenningur kunnum sem sagt ekkert að umgangast þetta og þess vegna er ég að vekja athygli á þessu,“ segir Friðrik

Hann segir þó að barnabarn hans fái að sjálfsögðu mjög góða umönnun á Barnaspítalanum, sem sinni honum í alla staði hið besta. „Ég vil að fólk sé vakandi fyrir þessum hryllingi.“ Hann segir umræðu á samfélagsmiðlum í kjölfarið hins vegar hafa snúist upp í að það ætti að skjóta sprautufíkla og aumingja. „Svona má maður ekki tala,“ segir Friðrik ákveðinn. „Þetta er bara mikið veikt fólk og hryllilegt að ánetjast þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert