Vandamálið aðkoman að höfninni

Landeyjahöfn.
Landeyjahöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Helsta vandamálið í tengslum við notkun Landeyjahafnar er hversu  erfið aðkoman að höfninni er við vissar aðstæður að mati skipstjóra sem siglt hafa um hana. Þetta kemur fram í könnun sem Vilbergur Magni Óskarsson, skólastjóri Skipstjórnarskóla Tækniskólans, vann um viðhorf skipstjóranna í lok árs 2013 fyrir siglingasvið Vegagerðarinnar.

Fram kemur í könnuninni, sem birt hefur verið í heild á fréttavefnum Eyjar.net að fyrir utan mynni Landeyjahafnar séu grynningar sem fara þurfi yfir. Grynningarnar séu sandrif og þar brjóti gjarnan. Ekki þurfi mikla ölduhæð til og því minni öldu sem grynnra sé á rifinu. Þegar skipinu sé siglt yfir þessar grynningar verði það fyrir svo kölluðum grunnvatnsáhrifum sem gerir það að verkum að erfiðara sé að hafa stjórn á skipinu. Þegar dælt hafi verið og dýpkað á sandrifinu sé ástandið betra og síður verði vart við grunnvatnsáhrifin. 

Skipstjórarnir telja Landeyjahöfn í sjálfu sér ágæta. Það helsta sem hái henni sé að hún sé þröng fyrir skip af þeirri stærð sem Herjólfur er, en hentar ágætlega fyrir skip af þeirri stærð sem hún sé hönnuð fyrir. Mikill sandur hafi safnast fyrir inni í höfninni utan við innri garðana og myndað þar sandeyrar. Einnig sé mjög grunnt innan hafnargarðanna utan þeirrar mjóu rennu sem skipið siglir um.

Fram kemur að þessi mikli sandur geri það að verkum að sjór sem fylgir öldunni og hefði átt að deyja út við innri garðana, fer þess í stað inn að legustað skipsins og skapi þar mikla ókyrrð og erfiðleika við landgöngubrú farþega. Jafnvel í góðu veðri sé skipið á mikilli hreyfingu við viðlegukantinn ef einhver alda er utan hafnarinnar. Komið hafi fyrir að landgöngubrúin hafi verið ónothæf af þessum sökum. Þá þurfi meiri landfestar vegna þessa en annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert