Vildi fá að ráða öllu

Milkywhale er hugarfóstur Melkorku Sigríðar Magnúsdóttur og kemur fyrsta skipti fram í kvöld á Reykjavik Dance Festival. Melkorka sem er danshöfundur hefur unnið verkefnið ásamt Árna Rúnar Hlöðverssyni, tónlistarmanni í FM Belfast, og Auði Övu Ólafsdóttur, rithöfundi, þar sem poppi er brætt saman við dans.  

Þau Melkorka og Árni voru sammála um að oft væru tónleikaupplifanir fyrirsjánlegar þar sem einsleitni gætti í uppstillingum og notkun tækjabúnaðar. Hugmyndin var því að gera sýningu eða tónleika þar sem þau fengju að ráða öllu sem sæist á sviðinu.

mbl.is leit á æfingu hjá Milkywhale í gær og fræddist um fæðingu poppgjörningsins. Magnús Leifsson kvikmyndagerðarmaður kemur einnig að myndrænni framsetningu og Halldór Halldórsson eða Dóri DNA er í hlutverki dramatúrgs.

Verkið verður sýnt í Tjarnarbíói kl. 21 í kvöld, á opnunarkvöldi sviðslistarhátíðarinnar Every Body's Spectacular, og aftur sýnt á sama tíma á morgun. Hátíðin er samvinnuverkefni Lókal - alþjóðlegrar leiklistarhátíðar og Reykjavík Dance Festival og stendur fram á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert