400 börn svæfð á ári vegna tannskemmda

Um 400 börn eru svæfð hér á landi vegna tannviðgerða.
Um 400 börn eru svæfð hér á landi vegna tannviðgerða. mbl.is/Kristinn

Um fjögur hundruð börn eru svæfð hér á landi á ári hverju vegna tannskemmda. Svæfingar á börnum vegna tannviðgerða eru um þrefalt algengari hér á landi en í Svíþjóð. Stærstan hluta þessara aðgerða væri þó hægt að fyrirbyggja með réttri tannhirðu og matarræði að sögn Helga Hanssonar, barnatannlæknis, sem gerir slíkar aðgerðir á fimm til sjö börnum í viku.

Eins og fjallað var um í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær er algengt að taka þurfi tennur úr allt niður í eins árs gömlum börnum hér á landi vegna slæmrar tannumhirðu. Helgi segir þetta vandamál ekki nýtt af nálinni, en stuðla þurfi að vitundarvakningu svo hægt sé að fyrirbyggja stærstan hluta þessara aðgerða.

Stór hluti aðgerðanna væru óþarfar

„Sumt er ekki fyrirbyggjanlegt, eins og slys og þroskahamlanir, en það er hægt að losna við stóran hluta þessara aðgerða með réttri tannhirðu, matarræði og flúornotkun. Stór hluti þessara aðgerða væru því strangt til tekið óþarfar,“ segir Helgi í samtali við mbl.is. Þá segir hann einnig fjölda aðgerða vera framkvæmdar á degi hverjum, sem ekki þarf að grípa til svæfingar vegna. „Við erum að gera við og draga ónýtar tennur úr börnum á hverjum einasta degi.“

Aðspurður um ástæður þessa segir Helgi að oft á tíðum sé um sinnuleysi eða vanþekkingu af hálfu foreldra að ræða. „Það eru til dæmis foreldrar sem taka of seint við sér í tannhirðu og matarræði. Oft á tíðum er þetta líka fólk sem heldur að það sé að gera rétta hluti en er ekki að því,“ segir hann og bendir á að næturgjöf í pela eða á brjósti geti verið stór áhættuþáttur í tannskemmdum ungra barna.

0,5% allra barna á Íslandi svæfð vegna tannviðgerða

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hefur fjöldi svæfinga á börnum vegna tannviðgerða verið áþekkur undanfarin fimm ár. Á síðasta ári voru þó 398 börn svæfð, sem er aukning frá árunum áður en 378 voru svæfð vegna tannviðgerða árið 2013 og 361 árið 2012.

Á síðasta ári voru því 0,5% allra barna á Íslandi svæfð vegna tannviðgerða, en á sama tímabili í Svíþjóð voru um 900 börn svæfð af 530 þúsund sem gerir aðeins um 0,17%. Svæfingar á börnum vegna tannviðgerða eru því þrefalt algengari hér á landi en í Svíþjóð.

Sér börn niður í eins árs með tannskemmdir á hverjum degi

Helgi segir stóran hluta þeirra barna sem fari í aðgerðir vegna tannskemmda vera á milli þriggja og fimm ára, en hann sjái þó börn niður í eins árs með skemmdar tennur á hverjum einasta degi.

Líkt og Eva Guðrún Sveinsdóttir, barnatannlæknir, sagði í samtali við Stöð 2 í gær, er vandamálið falið og ekki mikið er talað um það í samfélaginu. „Fólk sem lendir í þessu er ekkert sérstaklega að tala um þetta eða auglýsa þetta,“ segir Helgi. „Þetta er vandamál sem er til staðar og verður áfram, en við sem samfélag gætum dregið úr fjöldanum og magninu.“

Helgi bendir á að farið hafi verið í átak í endurgreiðslu á tannlækningum barna, sem sé gott verkfæri í að bæta tannheilsuna því tannlæknar fái þá tækifæri á að gera við skemmdu tennurnar. „Næsta skref í átakinu hlýtur að vera að fækka tannskemmdum á Íslandi til samræmis við nágrannaþjóðir okkar og það verður ekki gert öðruvísi en með aukinni fræðslu og þekkingu til almennings,“ segir hann.

Þá bendir hann á að enn vanti töluvert upp á þekkinguna til að hægt verði að fyrirbyggja tannskemmdirnar, en tannlækningatölur á vesturlöndunum sýni að eftir því sem tannheilsan smábatni hjá millistétt og efri stétt þá sitji hún eftir hjá lægri stéttunum. 

Fjöldi viðgerða hefur minnkað um helming

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum er þorri barna hér á landi þó með fáar eða engar skemmdir eða viðgerðar tennur. Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Reynir Jónsson, tryggingayfirtannlæknir hjá Sjúkratryggingum, tannheilsu íslenskra barna aldrei hafa verið betri en hún er nú. Þannig bendir hann á töflu úr staðtölum SÍ sem sýnir að mun minni hluti þeirra barna sem koma til tannlækna þurfa á tannviðgerð að halda. 

Fjöldi þeirra barna sem gert var við tennur í árið 1998 var til að mynda 18.888 en hefur fækkað niður í 13.113 árið 2013. Hlutfall barna sem komu til tannlæknis og þurftu ekki á neinni viðgerð að halda hefur farið úr 57,7% upp í rúmlega 70% á þessu tímabili. Þá hefur fjöldi viðgerða minnkað um nánast helming, en árið 1998 voru gerðar 61.754 viðgerðir á börnum, en árið 2013 voru þær 31.623.

Helgi Hansson, barnatannlæknir, gerir aðgerðir á 5-7 börnum í viku …
Helgi Hansson, barnatannlæknir, gerir aðgerðir á 5-7 börnum í viku vegna tannskemmda. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
Tannviðgerðir barna eru þrefalt algengari hér á landi en í …
Tannviðgerðir barna eru þrefalt algengari hér á landi en í Svíþjóð. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert