Ekki sátt um hvað ætti að úrskurða

Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM og Páll Halldórsson formaður samninganefndar BHM
Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM og Páll Halldórsson formaður samninganefndar BHM mbl.is/Styrmir Kári

Ekki var sátt um það milli samninganefndar BHM og þeirra sem sátu í gerðardómi um hvað dómurinn ætti að úrskurða.  Ekki var tekið á svo nefndum bókunum í dómi vegna samninga BHM en það var hins vegar gert í máli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh).

Bókanir með kjarasamningi taka til ágreiningsefna, sem ekki eru leyst í eiginlegum kjarasamningi. Bókanir hafa sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur samkvæmt úrskurði félagsdóms. Töluvert hefur verið fjallað um launakjör leikara hjá Þjóðleikhúsinu í þessu samhengi en laun þeirra eru talsvert lægri en leikara hjá Borgarleikhúsinu (LR) og Leikfélagi Akureyrar (LA).

Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM segir að það sé skoðun BHM, og hafi alltaf verið, að bókanir séu óaðskiljanlegur hluti kjarasamnings. Kjarasamningar náist oft með bókunum og þær séu oft það sem gerir gæfumuninn  við að ná samningi.

Kjarasamningur miklu stærra mál en launahækkanir

„Við tókum það skýrt fram í upphafi við gerðardóm að við litum svo á að það væri í höndum dómsins að ákvarða með kaup og kjör og þar á meðal væru bókanirnar. Það kom hins vegar strax fram hjá dómsfulltrúum að þeir voru ekki sammála þessu,“ segir Þórunn og bætir við að dómararnir hafi litið þannig á að það væri þeirra hlutverk að ákveða launahækkanir,  sem er auðvitað alltaf hluti kjarasamnings. „En kjarasamningur er eðli málsins samkvæmt  miklu stærra mál ekki síst þegar við er að ræða stofnanasamningskerfi eins og um er að ræða í þessum samningum,“ segir Þórunn.

Samkvæmt úrskurði gerðardóms var ekki fallist á það með BHM að kjarasamningum fylgi ætíð bókanir og þær séu hluti af kjarasamningi og hafi sama gildi. Máli sínu til stuðnings vísaði BHM í dóm félagsdóms frá árinu 2000.

Gerðardómur féllst hins vegar ekki á að sá dómur eða þeir eldri dómar sem þar er vísað til hafi fordæmisgildi í þessu tilviki. Gerðardómur vísar til laga sem sett voru í vor þar sem fram kemur að gerðardómur skuli ákveða kaup og kjör félagsmanna BHM og Fíh fyrir 15. ágúst. Þar sé ekki að finna neinar heimildir til handa gerðardómurum til að taka ákvarðanir eins og þær sem eru að jafnaði tilgreindar í bókunum aðila með kjarasamningum.

Í úrskurði gerðardóms kemur fram að gerðardómurinn hafi  haldið marga fundi með forsvarsmönnum aðila, bæði formlega og óformlega, saman og sitt í hvoru lagi, eins og gerðardómsreglur heimila. Taka dómarar fram að samvinna við þá hafi verið með miklum ágætum og öll þau gögn og upplýsingar sem um hafi verið beðið hafi borist gerðardómnum fljótt og greiðlega.

Sættir reyndar án árangurs

Samninganefnd ríkisins (SNR) og Fíh gerðu dómsátt (bókanir) um tiltekin atriði í samningi sínum og þar af leiðandi hafi gerðardómur ekki tekið ákvörðun um þau atriði en úrskurðað um það sem útaf stóð. Sættir hafi ítrekað verið reyndar milli BHM og SNR en án árangurs.

Þórunn segir samningsrétturinn liggi hjá hverju aðildarfélagi BHM fyrir sig og hvert aðildarfélag setur fram sínar sér kröfur. Það hafi verið ákveðið á sínum tíma að sameinast um eina aðalsamninganefnd og um leið nokkrar aðal kröfur sem voru aðal kröfugerðin sem viðræðurnar snérust fyrst og fremst um. Þegar kæmist botn í þá samninga þá þyrfti hver samninganefnd að ræða við samninganefnd ríkisins um sínar sér kröfur sem eðlilega taki mið af samningum sem nást en aðalatriðið sé  að félögin eru með ólíkar kröfur enda starfa félagsmenn á ólíkum sviðum, segir Þórunn.

„Þegar samningar takast ekki eins og gerðist í byrjun júní þá eru sér kröfurnar  ekki komnar fram. Svo voru sett lög og kröfugerðin sett í hendur gerðardóms.  Við hjá BHM erum þeirrar skoðunar og höfum alltaf verið , að stofnanasamningskerfi , virkni þess og þróun standi og falli með því að hægt sé að vinna það saman samkvæmt ákveðnum bókunum eins og verið hefur,“ segir hún en eins og áður sagði þá náðist ekki samkomulag þar að lútandi.

Leikarar sennilega auðljósasta dæmið

Í byrjun ágúst var samninganefnd BHM ásamt samninganefnd ríkisins  boðuð á fund til að gera úrslita tilraun  til þess að ná sátt um bókanirnar. Líkt og Fíh hafði gert með SNR.

„Við ítrekum afstöðu okkar um að við töldum það hlutverk gerðardóms að klára þetta mál en í ljós kom að afstaða dómsins hafði ekki breytst sem kannski var ekki að vænta.“

Þórunn segir að þann sama dag hafi verið lagðar fram einhverjar hugmyndir  af hálfu samninganefndar ríkisins en BHM hafi bent á að ef ætti að fara í þessa vegferð þá yrði að ræða sérkröfur við hvert félag.  Að hennar sögn féllst gerðardómur ekki á það en það hafi verið alveg ljóst af hálfu BHM að þetta væri eina leið  bandalagsins að koma sérkröfum á dagskrá úr því sem komið var.  Því hafi ekkert orðið úr þessu þar sem sérkröfurnar voru ekki á dagskrá. Það skýri hvers vegna niðurstaða gerðardóms er eins og hún er.

„En þetta er auðvitað mjög bagalegt fyrir mörg félaganna. Leikararnir eru sennilega augljósasta dæmið um það því þar hefur myndast gjá eftir því hvort leikarar vinna hjá Þjóðleikhúsinu, LA eða LR. Við það verður auðvitað ekki unað, skiljanlega,“ segir Þórunn.

Hún segir að það  sé síðan í höndum fjárlagavaldsins að reyna að ná sátt við leikarana sem nú ræða sín mál við þjóðleikhússtjóra.  Ef fjárlagavaldið er reiðubúið til þess að seta aukið fé inn í stofnanasamninginn í Þjóðleikhúsinu verður hægt að ljúka þessari deilu.

Úrskurður gerðardóms samkvæmt lögum nr. 31/2015

20% launamunur ekki ásættanlegur

Stefán Svavarsson endurskoðandi, Garðar Garðarsson, hrl og formaður gerðardóms og …
Stefán Svavarsson endurskoðandi, Garðar Garðarsson, hrl og formaður gerðardóms og dr. Ásta Dís Óladóttir sátu í gerðardómi.
Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu.
Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert