Hótaði að stinga opinbera starfsmenn

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Rúmlega fimmtug kona hefur verið ákærð fyrir ítrekaðar hótanir um hnífsstungur, fyrir að bera hníf á almannafæri og að fyrir að virða ekki stöðvunarmerki lögreglu.

Öll brotin áttu sér stað á Selfossi frá maí og fram í nóvember 2014 og snúa flest að samskiptum konunnar við opinbera starfsmenn. Er hún sögð hafa í fimm aðskildum tilvikum hótað opinberum starfsmönnum að stinga þá, alls sex manns og þar af einum lögreglumanni tvisvar. Málið var þingfest í dag.

Er konan ákærð fyrir að hafa í símtali í maí 2014 hótað löglærðum fulltrúa sýslumanns, sem þá var við störf á vinnustað sínum, að stinga viðkomandi í magann með hnífi. Svipað var uppi á teningnum í júlí sama ár þegar konan er sögð hafa hótað öðrum starfsmanni embættisins að koma á sýsluskrifstofuna og stinga viðkomandi með hnífi.

Tæpum mánuði seinna er konan sögð hafa hótað starfsmanni Sjúkratrygginga Íslands símleiðis sem þá var við störf á umboðsskrifstofu hjá sýslumanninum á Selfossi. Hótaði konan að stinga hana í magann og drepa hana.

Sama kvöld er konan sögð hafa gengið um með hníf með 12 cm löngu blaði á almannafæri, nánar tiltekið við Furugrund á Selfossi. Þegar lögregla hafði afskipti af henni skömmu síðar vegna vopnalagabrotsins hótaði hún að stinga lögreglumennina tvo með hnífi. Tveimur vikum síðar varð konan aftur á vegi lögreglumanna við skyldustörf, í þetta sinn við gámasvæði á Hrísmýri. Ákærða hélt á hníf þar sem hún sat í ökumannsæti bifreiðar, otaði honum í átt að lögreglumönnum og hótaði að stinga þá.

Hefur ríkissaksóknari krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert