Lóðaúthlutun til Thorsil fyrir dóm

Stefna Atlantic Green Chemicals gegn Reykjanesbæ, Reykjneshöfn og Thorsil var …
Stefna Atlantic Green Chemicals gegn Reykjanesbæ, Reykjneshöfn og Thorsil var tekin fyrir í héraðsdómi í morgun.

Mál Atlantic Green Chemicals, AGC, gegn Reykjanesbæ, Reykjaneshöfn og Thorsil var tekið fyrir í héraðsdómi nú í morgun. Jón Jónsson, lögmaður Atlantic Green Chemicals segir að árið 2011 hafi félagið fengið loforð frá Reykjaneshöfn um að fá úthlutað lóð að Berghólabraut 4. Í kjölfarið hafi verið unnið umhverfismat en hugmyndin að baki fyrirtækinu byggir á því að framleiða lífalkóhól nýtt er afgangsgufa frá kísilveri United Silicon.

Bygging kísilvers United Silicon frestaðist og þar sem starfsemi Atlantic Green Chemicals gat ekki hafist án United Silicon var beðið eftir að málefni kísilversins leystust. Í millitíðinni var Thorsil, sem hyggur á uppbyggingu annars kísilvers í Helguvík, úthlutað lóðinni sem Atlantic Green Chemicals hafði verið lofað. 

„Þarna í kringum 2011 var Reykjanesbær með metnaðarfullar hugmyndir um að byggja upp efnagarða í Helguvík, þar sem gert var ráð fyrir ýmis konar efnaiðnaði sem gæti tengst hvor öðrum. Þess vegna er AGC svona umhugað um þessa lóð, vegna þess að þeir þurftu að nýta afgangsvarmaorku frá United Silicon en þau áform voru lengi í óvissu og þess vegna var verkefnið sett í bið frá 2011-2013 þangað til að bygging kísilversins var komin af stað og þá var AGC tilbúið að fara af stað,“ segir Jón.

Stefnan gengur út á það að menn eru að krefjast viðurkenningar á þessu loforði um leigurétt á lóðinni í samræmi við almenna skilmála. Það er krafan,“ bætir Jón við en Reykjanesbær, Reykjaneshöfn og Thorsil hafa farið fram á að málinu verði vísað frá. Jón segir óvíst hvenær úrskurðað verði um hvort að málinu verði vísað frá.

Jón segir stöðuna einkennilega, að verkefni, þar sem framkvæmdir geta hafist nú þegar, hafi verið sett í uppnám vegna annarra framkvæmda sem óvissa ríkir um að fari af stað. Reykjaneshöfn sé að verða af tekjum sem kæmu til þeirra ef hægt væri að hefjast handa við framkvæmdir AGC. 

Töluverður styr hefur staðið um lóðaúthlutunina til Thorsil en 25,3% íbúa í Reykjanesbæ hafa krafist íbúakosninga um deiliskipulag á svæðinu. Mun hún að öllum líkindum fara fram í nóvember og vera rafræn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert