Vantar enn 120 starfsmenn

 Enn á eftir að ráða um 120 starfsmenn í  50% starf  á frístundaheimilum í borginni, en skólastarf hófst í Reykjavík á mánudag.

Samkvæmt minnisblaði sem lagt var fram á fundi skóla- og frístundaráðs í gær þá höfðu þann 25. ágúst tæplega 4. 200 börn verið skráð á frístundaheimili í borginni.  Af þeim hafa 3.390 fengið pláss. Um 800 börn bíða eftir plássi vegna þess að ekki er enn búið að fullmanna frístundaheimilin en eftir er að ráða í u.þ.b. 60 stöðugildi, þ.e. rúmlega 120 starfsmenn í 50% starf.

Enn vantar fólk í 59 stöður á leikskólum

Ráðningar ganga hins vegar vel þessa dagana og má búast við að búið verði að ráða í öll störf upp úr miðjum september líkt og undanfarin ár. Hlutfallslega flest börn eru á biðlista eftir frístundaheimili í Grafarvogi en fæst í Miðborg/Hlíðum. Á sama tíma árið 2014 voru 900 á biðlista en þá voru umsóknir færri en nú, eða 3.589, segir á vef Reykjavíkurborgar.

Einnig á eftir að manna í 59 stöður í leikskólum og 31 í grunnskólum.  Sem dæmi um fjölda í einstökum starfsstéttum þá þarf í leikskólum  að ráða í 6 stöðugildi deildarstjóra, um 32 stöðugildi leikskólakennara á deild og um 13 stöðugildi í stuðning. Í grunnskólum vantar um 3,5 stöðugildi kennara,  um 17 stöðugildi skólaliða og 8 stöðugildi stuðningsfulltrúa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert