Vilja loka leikskólanum Sjónarhóli

Til stendur að loka leikskólanum Sjónarhóli um áramótin. Myndin tengist …
Til stendur að loka leikskólanum Sjónarhóli um áramótin. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Styrmir Kári

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur lagt til að rekstri leikskólans Sjónarhóls verði hætt við lok þessa árs. Skóla- og frístundaráð borgarinnar frestaði því að taka tillöguna fyrir á síðasta fundi ráðsins þann 12. ágúst síðastliðinn til næsta fundar en hún va rþó ekki tekin fyrir á fundi ráðsins í gær.

Foreldrar barna sem nú eru á leikskólanum fá forgang fyrir börnin í aðra leikskóla borgarinnar og fara börnin fram fyrir önnur börn á forgangslista í þann leikskóla sem foreldrar óska eftir að  þau fari í.

Börnin tekin í aðlögun í vor

Í bókun sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði lögðu fram á fundinum segir að úttekt ráðgjafafyrirtækisins Intellecta hafi staðfest að varnarorð og gagnrýni vegna sameininga skóla og leikskóla í Grafarvogi hafi átt fullan rétt á sér.

„Rauði þráðurinn í úttektinni er að samráð hafi verið algjörlega ófullnægjandi auk þess sem skort hafi framtíðarsýn og faglegar og fjárhagslegar forsendur í aðdraganda sameininganna.  Sameiningarferlið, undirbúningur og  framkvæmd verksins fékk falleinkunn. Ljóst er að fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar hafa engu gleymt og ekkert lært því nú er svipuðum aðferðum beitt,“ segir í bókuninni.

„Unnið hefur verið að lokun leikskólans Sjónarhóls í alllangan tíma án vitundar og samráðs  við foreldra og starfsmenn. Til marks um samráðs- og tillitsleysið er  að börn voru tekin í aðlögun á leikskólann í vor og ekki var fundað með foreldrum eða starfsmönnum fyrir en í byrjun júlí á sumarleyfistíma.“

Aðeins 23 börn á leikskólanum

Í bókun fulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænan og Pírata sagði að miklar breytingar hefðu orðið á starfsemi Sjónarhóls á undanförnum misserum. Börnum á leikskólanum hafi fækkað jafnt og þétt undanfarin ár, þar séu nú 23 börn eða þriðjungur þess sem leikskólann rúmar og við blasi að í september verði þau rúmlega fjórtán.

„Sótt hefur verið um flutning fyrir stærstan hluta barnanna á aðra leikskóla og tekur lokun leikskólans ekki í gildi fyrr en um áramót. Þá verður öllum börnum Sjónarhóls tryggt leikskólapláss á öðrum leikskólum. Þær eru tilhæfulausar staðhæfingar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að ekkert samráð hafi verið haft við stjórnendur leikskólans og foreldra leikskólabarnanna og að unnið hafi verið að lokun Sjónarhóls án vitundar hlutaðeigandi,“ segir í bókuninni.

Hafa upplýsingar en foreldrar og starfsmenn ekki upplýstir

„Staðreyndir málsins eru þær að það var að frumkvæði stjórnenda leikskólans að hugmyndir um um lokun leikskólans yrðu skoðaðar. Voru aðallega fagleg rök fyrir þeim. Stigið var varlega til jarðar í einu og öllu og kostir og gallar metnir og það tryggt að samráð og upplýsingagjöf væru viðhöfð á öllum stigum málsins. Engar aðfinnslur eða ábendingar hafa borist skóla- og frístundasviði eða meirihlutafulltrúum ráðsins frá foreldrum eða starfsmönnum eftir að fundað var með þeim og var almennur skilningur á stöðunni sem upp var komin í máli leikskólans Sjónarhóls,“ segir að lokum í bókun fulltrúa flokkanna fjögurra.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögð þá fram aðra bókun en þar sagði að teljast yrði „enn einkennilegra að skólastjórnendur og skóla- og frístundasvið hafi haft vitneskju um áform og hugmyndir um lokun leikskólans, á meðan foreldrar og starfsmenn höfðu ekki verið upplýstir um málið og börn hafi verið tekin í aðlögun á vormánuðum.“

Í bókun fulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænan og Pírata …
Í bókun fulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænan og Pírata sagði að miklar breytingar hefðu orðið á starfsemi Sjónarhóls á undanförnum misserum. mbl.is/Ómar
Rúmlega tuttugu börn eru á leikskólanum í dag.
Rúmlega tuttugu börn eru á leikskólanum í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert