Engin slys og engin alvarleg tjón tilkynnt

Heitavatnslaust var miðsvæðis í Reykjavík í dag.
Heitavatnslaust var miðsvæðis í Reykjavík í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heitt vatn er komið á að nýju í miðborg Reykjavíkur. Starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur hóf að hleypa vatninu aftur á um klukkan 16:40 og því lauk á sjötta tímanum.

Vegna viðgerðar á loka í dælustöð í Öskuhlið í nótt féll niður þrýstingur á heitu vatni í Skólavörðuholtinu og vesturbæ Reykjavíkur.

Í framhaldinu sprungu heitavatnslagnir í nokkrum götum og varð stór hluti Skólavörðuholtsins án heits vatns. Búið er að gera við skemmdirnar að mestu.

Starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem bilunin hefur valdið.

Sunna Valgerðardóttir, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segir að þegar viðgerðum var lokið hafi þurft að hleypa vatni löturhægt á kerfið aftur, því lagnir á þessu svæði séu gamlar.

„Þetta þarf að gerast hægt til að forðast ofþrýsting. Það gekk vel. Stór hluti Þingholtanna og Skólavörðuholts var án heitavatns í dag,“ segir Sunna.

Hún segir að einnig hafi heimlögn sprungið við Ásvallagötu, þannig að bilunin hafi farið víða. „Mestu áhrifin voru hins vegar í miðbænum, við Laugaveg, á Skólavörðustíg, Skólavörðu holtinu og þar í kring.“ Hún segir bilunina hafa verið alvarlega og ríflega 30 manns hafi í dag unnið að viðgerðum.

Ekki er vitað hvað olli biluninni, en hún varð eins og áður sagði eftir að vatni var hleypt á í nótt eftir að viðgerðum lauk. Sunna segir að ekki sé fyllilega vitað hvað olli biluninni, en hún segir ekki um að ræða mistök starfsmanna Orkuveitunnar þegar vatni var aftur hleypt á. „Nei, það virðist ekki vera. Þetta bara getur gerst. Þess vegna krosslögðu menn fingur áðan. Þetta eru svo gamlar lagnir,“ segir Sunna. Tjón Orkuveitunnar er að sama skapi minna en talið var, og að engar tilkynningar hafi borist um slys á fólki.

Hún segir að tvær tilkynningar hafi enn sem komið er borist um leka eða tjón í kjöllurum, við Laugaveg og Óðinsgötu. Hún hvetur fólk til að kanna aðstæður lagna og kjallara hjá sér búi það á því svæði sem varð vatnslaust. „Ef það lekur mikið þá er best að fólk hafi samband við Orkuveituna í síma 516-0000.“

Þá gæti verið bank í ofnum þegar heitt vatn kemst aftur á ofna vegna lofts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert