Örugglega ekki feðgar

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Unglingspiltur sem kom hingað til lands með serbneskum manni nýverið er nánast örugglega ekki sonur mannsins líkt og maðurinn hélt fram við komuna hingað til lands. Samkvæmt heimildum mbl.is bendir allt til þess að maðurinn hafi ekki verið með leyfi frá foreldrum piltsins til þess að fara með hann úr landi. Þetta hefur hins vegar ekki fengist staðfest hjá lögreglu.

Mál piltsins er í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurnesjum og vill Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, ekki tjá sig um málið að öðru leyti en það sé litið mjög alvarlegum augum. Verið sé að afla upplýsinga erlendis frá um fjölskylduhagi piltsins. Maðurinn situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa ætlað sér að smygla drengnum hingað til lands.

Drengurinn hefur verið í umsjón barnaverndaryfirvalda frá því hann kom hingað til lands um síðustu helgi. 

Fjölmargir hafa sótt um hæli á Íslandi það sem af er ári og á mánudag sóttu 14 um hæli hér á landi. Fleiri tugir hafa sótt um hæli hér á landi það sem af er ágústmánuði. 

Í haldi grunaður um smygl á fólki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert