Sjónarvottar fengu áfallahjálp

Við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.
Við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. mbl.is/Ómar

Rannsókn á banaslysi sem varð síðdegis í gær við Jökulsárlón stendur yfir, en fulltrúar frá lögreglunni á Suðurlandi og Rannsóknarnefnd samgönguslysa eru á vettvangi. Atburðarásin er óljós en unnið er að því að fá skýra mynd af tildrögum slyssins. Sjónarvottar hafa fengið áfallahjálp.

Fjölmenni kemur að rannsókninni en unnið er að því að rannsaka vettvang, ræða við vitni og aðra sem geta veitt upplýsingar um málið.  

Lögreglan á Suðurlandi sendi frá sér tilkynningu síðdegis í gær um að alvarlegt slys hefði orðið við Jökulsárlón og um kvöldmatarleytið var upplýst að um banaslys hefði verið að ræða. Erlend kona á sextugsaldri varð undir hjólabát á planinu við þjónustumiðstöð lónsins. Konan var við lónið með fjölskyldu sinni þegar slysið varð. Talið er að konan hafi látist samstundis.

Slysið varð um fimmleytið í gær að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli. Jökulsárlón er vinsæll ferðamannastaður og segir Sveinn aðspurður að fólk hafi orðið vitni að slysinu. „Það fór áfallahjálparteymi frá Höfn á staðinn,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Sveinn segir ennfremur, að ekki sé hægt að greina frá nafni eða þjóðerni konunnar að svo stöddu. Unnið sé að því að hafa samband við aðstandendur konunnar og upplýsa þá um slysið. Aðspurður segir Sveinn að svona rannsókn sé tímafrek.

Lést við Jökulsárlón

Alvarlegt slys við Jökulsárlón

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert