Þolandi meintrar árásar látinn

Samkvæmt heimildum mbl.is voru það ekki líkamlegir áverkar vegna árásarinnar …
Samkvæmt heimildum mbl.is voru það ekki líkamlegir áverkar vegna árásarinnar sem drógu manninn til dauða. mbl.is/Þórður

Lögreglan á Akureyri rannsakar líkamsárás sem talin er hafa átt sér stað við Hjalteyrargötu á Akureyri aðfaranótt 19. júlí sl. Maðurinn kærði líkamsárásina þann 12. ágúst síðastliðinn en hann lést síðustu helgi.

Samkvæmt heimildum mbl.is voru það ekki líkamlegir áverkar vegna árásarinnar sem drógu manninn til dauða. Krufning hefur farið fram og er beðið niðurstöðu hennar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri er rannsókn málsins í fullum gangi og er búið að taka skýrslur af vitnum og flestum sakborningum sem eru taldir vera um fimm talsins. Ekki hefur náðst til allra vitna og sakborninga, meðal annars vegna þess að þeir stunda vinnu á sjó og eru í útlöndum.

Þá bendir ekkert til þess að ákveðinn félagsskapur sé að baki hinni meintu líkamsárás, heldur frekar að þarna hafi verið um að ræða átök, ryskingar eða hugsanlega árás nokkurra einstaklinga. Að sögn lögreglu er málið ekki talið tengjast vélhjólaklúbbi en tveir sakborninga eru félagr í félagsskapnum MC Nornir. Klúbbur sjálfur er ekki talinn tengjast málinu.

Maðurinn leitaði fyrst til læknis á Selfossi þann 22. júlí en þá kom í ljós að hann var rifbeinsbrotinn. Við þá rannsókn og frekari rannsókn er hann leitaði sér læknis á Akureyri í ágúst kom ekkert fram sem benti til alvarlegra höfuðáverka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert